Karmoy Noregi - Mannvit.is
Frétt - 27.02.2016

Samningur við Norsk Hydro um kerlínu í Karmøy

Norski álframleiðandinn Hydro Aluminium hefur um nokkurn tíma unnið að undirbúningi byggingu nýrrar kerlínu í álveri sínu í Karmøy í Noregi. Verkefnið er byggt á nýjustu útfærslu fyrirtækisins á eigin kertækni sem einblínir á að lágmarka umhverfisáhrif framleiðslunnar og tryggja bestu mögulegu orkunýtni í framleiðsluferlinu. Þegar kerlínan sem gengur undir nafninu Karmøy Technology Pilot verður gangsett á seinni hluta 2017 verður hún sú umhverfis- og orkuvænasta álframleiðslulína í heiminum. HRV  hefur á síðustu tveimur árum tekið virkan þátt í þessu ferli og verið ábyrgt fyrir hönnun og undirbúning fyrir nýja skautsmiðju sem mun sjá nýju kerlínunni fyrir forskautum. HRV er einnig ábyrgt fyrir endurbótum á baðefnavinnslu álversins. Samningur HRV er byggður á svokallaðri EPCM þjónustu (alhliða samningur um hönnun, innkaup og umsjón framkvæmda) og spannar hönnun á framleiðsluferlinu, hönnun bygginga, hönnun rafmagnsdreifingar, undirbúning útboða fyrir byggingar og allan búnað, rekstur allra samninga, byggingastjórnun, öryggisstjórnun á byggingastað, prófanir á búnaði og gagnsetning skautsmiðju og baðefnavinnslu. Áætlað er að búnaðurinn verði afhentur tilbúinn til rekstrar á seinni hluta ársins 2017.

HRV er samningsaðili verkefnisins en eins og með önnur verkefni fyrirtækisins er verkefnisteymið aðallega mannað af starfsmönnum Mannvits og Verkís sem eru eigendur HRV. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Hydro Aluminium http://www.hydro.com/en/Press-room/Karmoy-technology-pilot

Samningurinn milli HRV og Hydro er stærsta verkefni sem fyrirtækið hefur tekið að sér utan Íslands. Skapti Valsson forstjóri HRV sagði í viðtali á Stöð 2 að margir þeirra starfsmanna sem vinna í verkefninu á vegum HRV hafi starfað í álversgeiranum í 20 ár. Vinnan fyrir álverin á Íslandi hefur skapað verkþekkinguna og reynsluna sem nú er verið að flytja út og bætti við að "það sannast að ef það er heimamarkaður til þess að þróa vöru þá er hægt að selja hana erlendis líka".