Mannvitsbás Samorkuþing - Mannvit.is
Frétt - 03.05.2017

Samorkuþing 2017

Samorkuþing, ráðstefna um málefni orku- og veitufyrirtækja, fer fram í Hofi á Akureyri 4 og 5 maí 2017. Á Samorkuþingi er fjallað það sem er efst á baugi í orku- og veitumálum. Allt frá samfélagslegri ábyrgð til vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu, rafmagnsframleiðslu, rammaáætlunar og flutnings raforku. Mannvit og Hugfimi eru með bás við hlið hvors annars við innganginn og bjóðum alla velkomna í spjall til okkar.

Sérfræðingar okkar halda jafnframt erindi á ráðstefnunni. Eftirfarandi erindi eru haldin á vegum Mannvit:

Efnavöktun fráveitu – Sverrir Óskar Elefsen, efnatæknifræðingur

Í erindinu er fjallað um aðferðir við efnavöktun fráveituvatns og mat á áhrifum þess á viðtaka. Sem dæmi eru teknar niðurstöður úr yfirstandandi vöktun í fráveitu á Selfossi og viðtaka hennar, Ölfusá. Auk mælinga á efnainnihaldi eru rennslismælingar nauðsynlegur hluti efnavöktunar enda forsenda framburðarreikninga og eins mikilvæg forsenda við hönnun hreinsistöðva. Aðstæður til rennslismælinga og sýnatöku í fráveitukerfum eru oft takmörkum háðar, sem mikilvægt er að skilja við framkvæmd vöktunar og túlkun á niðurstöðum. Fjallað er um mat á fjölda persónueininga, mögulegar ástæður fyrir miklum breytileika í niðurstöðum og hugmyndir að nýrri nálgun við matið.

Sjálfbært samfélag: Ferðalag en ekki áfangastaður – Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur

Framtíðin er óljós, við vitum þó að við getum ekki haldið áfram að lifa og þróast á sama hátt og við höfum gerst síðustu áratugi. Í þessum fyrirlestri verður horft frá víðu sjónarhorni á þær breytingar sem við þurfum að ganga í gegnum til þess að tryggja að við getum haldið áfram að lifa við þau nútímaþægindi sem við flest á Vesturlöndum búum við í dag til framtíðar.

Jarðskaut í dreifiveitum – Jón Már Halldórsson, sviðsstjóri verkefnastjórnunarsviðs

Farið í gegn um helstu niðurstöður vinnuhóps veitnanna sem komið var á fót 2015, um jarðskaut almennt – mælingar jarðskauta, útreikninga og leiðbeiningar sem Mannvirkjastofnun gaf út í kjölfarið á þessari vinnu, VL 3.030. Einnig er fjallað sérstaklega um mælingar víðáttumikilla jarðskauta, kröfur staðalsins ÍST EN 50522:2010 til snertispennu og hönnunarstrauma og spennujöfnun innan virkja.

Blágrænar ofanvatnslausnir: Frá hugmynd að veruleika – leiðbeiningar Alta, Samorku, studdar af Skipulagsstofnun – Brynjólfur Björnsson, fagstjóri veitna

Mannvit er að forhanna götur og fráveitu fyrir nýtt athafnasvæði á Esjumelum. Í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið er kveðið á um að leitast verði við að nota vistvænar ofanvatnslausnir þar sem því verður við komið. Í fyrirlestrinum verður farið yfir helstu áskoranir sem upp hafa komið við tæknilegar útfærslur blágrænna ofanvatnslausna á svæðinu, en annars konar áskoranir fylgja innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna á athafnasvæðum samanborið við íbúðabyggð.

Líkangerð til stuðnings vatnstöku í nýjum sem eldri vatnsbólum – Sveinn Óli Pálmarsson, framkvæmdastjóri, Vatnaskilum

Til grundvallar vatnstöku þarf að liggja fyrir mat á grunnvatnsauðlindinni. Umfang slíks mats eykst jafnan eftir því sem vatnsþörfin er meiri og líkur á áhrifum vatnstökunnar á aðra notendur eða umhverfið aukast. Hvort verið sé að koma á fót nýju vatnsbóli eða auka vinnslu í eldra vatnsbóli hefur einnig mikið um það að segja. Kortlagning auðlindarinnar og afkastagreining og hönnun vinnslusvæðis fer gjarnan fram með stuðningi reiknilíkangerðar. Einnig er helst að beita líkani við mat á umhverfisáhrifum vinnslu og áhrifum hennar á aðra vatnsvinnslu, þegar vatnsþörfin er orðin það mikil að möguleiki sé á slíkum áhrifum eða kvaðir eru um slíkt mat í leyfisferli framkvæmdarinnar. Jafnframt má ákvarða vinnsluáætlun til undirbyggingar umsóknar um vinnsluleyfi eftir því sem við á og ákvarða nauðsynlega afmörkun vatnsverndarsvæða gagnvart vatnsbólinu. Dregin eru saman dæmi um framangreinda notkun líkangerðar og fjallað um hvernig hún geti nýst við margvíslegar aðstæður víða um land.

 

Hugfimi er jafnframt með örerindi á sýningunni sem ber heitið:

Gagnavefsjáin EYK: Öll gögn á einum stað

Bjarki Ásbjarnarson, hugbúnaðarverkfræðingur og framkvæmdastjóri Hugfimi.