Nýsköpunarmót álklasans 2019 - Mannvit.is
Frétt - 22.03.2019

Skapað úr álinu

Fjórir háskólanemar fengu hvatningarviðurkenningar á vel sóttu Nýsköpunarmóti Álklasans í hátíðarsal Háskóla Íslands. Snjallvæðing, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið voru ofarlega á baugi í þeim erindum sem flutt voru á mótinu og endurspegluðust þær áherslur í þeim nemendaverkefnum sem fengu viðurkenningu. Það var Guðbjörg Óskarsdóttir framkvæmdarstjóri Álklasans sem veitti verðlaunin og vakti af því tilefni máls á hugmyndagátt á heimasíðu Álklasans, þar sem háskólanemar geta sótt hugmyndir að verkefnum. Meðal fyrirlesara var Breki Karlsson, starfsmaður HRV, sem flutti áhugavert erindi um kolefnisnotkun og orkumál í álverum undir heitinu Orka og kolefni, sparnaður sem um munar.

Nemendurnir sem fengu hvatningarviðurkenningar í ár er: Caroline Mary Medion (HR): Improving Current Efficiency in L-T Aluminum Electrolysis with Vertical Inert Electrodes. Diljá Heba Petersen (HÍ): Endurnýtingarmöguleikar slaggs frá kísiljárnframleiðslu. Eymar Andri Birgisson (HR): Sjálfvirknivæðing á kerviðgerðum með tölvusjón og Hinrik Már Rögnvaldsson (HÍ): Flokkunarmódel planaðrar áltöku.

Að hvatningarviðurkenningunni standa fyrirtækin, Mannvit, Efla, Hamar, Snókur, Rio Tinto, Alcoa Fjarðaál, Norðurál og Landsbankinn, en auk þess bjó Álverið í Garðabæ, sem sérhæfir sig í yfirborðsmeðhöndlun á áli, til álviðurkenningarskildi handa viðurkenningarhöfum.

Í kaffihléi gafst gestum færi á því að bera íslenska álbílinn Ísar augum en hann var frumsýndur á Nýsköpunarmóti Álklasans fyrir tveimur árum síðan og hefur nú tekið miklum breytingum.
Álklasinn var stofnaður árið 2015 og stendur saman af um 40 fyrirtækjum og stofnunum í tengdum ál og kísiliðnaði. Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarmót Álklasans er haldið en að því standa Álklasinn, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök iðnaðarins og Samál.

Á mynd eru handhafar hvatningarviðurkenningar Álklasans ásamt fulltrúum nokkurra styrktaraðila:
Neðri röð frá vinstri: Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir (Álklasinn), Gunnar Sv. Gunnarsson (Mannviti),  Brjánn Jónsson faðir Diljár Hebu Petersen (HÍ), Einar Friðgeirsson (Norðuráli) Brynjar Baldursson (Eflu), Caroline Mary Medino (HR), Sigurður Magnús Garðarsson (HÍ)  Eymar Andri Birgisson (HR), Rannveig Rist (Rio Tinto) Hinrik Már Rögnvaldsson (HÍ), Magnús Þór Jónsson (Alcoa Fjarðaál),  Adrian Freyr Rodriguez (Hamar),