
Skarfabakki tekur breytingum - Mannvit annaðist hönnun og ráðgjöf
Skemmtiferðaskip verða sífellt meira áberandi í höfnum hérlendis sem helst í hendur við aukinn fjölda ferðamanna. Það þarf að huga að ýmsu svo unnt sé að taka á móti skipum af hinum ýmsu stærðargráðum. Til að bregðast við aukningunni hafa Faxaflóahafnir bætt aðstöðu sína á Skarfabakka í Sundahöfn í Reykjavík verulega. Búið er að setja upp móttökumiðstöð á hafnarsvæðinu þar sem má finna bæði upplýsingamiðstöð og öryggisgæslu. Einnig hafa verið sett upp tjöld þar sem innritun, landamæraeftirlit, vopnaleit, skimun farangurs og fleira fer fram. Það stendur þó til að byggja um fimm þúsund fermetra fjölnota farþegamiðstöð sem er gert ráð fyrir að verði komin í gagnið árið 2025.
Mannvit sá um almenna ráðgjöf fyrir Faxaflóahafnir varðandi hönnun umferðar- og upplýsingaskilta og yfirborðsmerkinga ásamt því að endurhanna stæði fyrir hópferðabíla. Allt eru þetta liðir í því að bæta aðstöðu, aðgengi og flæði innan svæðisins í því skyni að tryggja öryggi farþega. Hörður Bjarnason, vega- og umferðaverkfræðingur í faghópi samgangna hjá Mannviti, og Sveinn Bjarnason, hönnuður hjá markaði og þróun, komu að verkinu og segir Hörður aðstæður allt aðrar í sumar heldur en fyrri ár. „Það er mun betra skipulag og flæði umferðar. Þá er umferðaröryggi allra vegfarenda töluvert betra, til dæmis hefur sérrými gangandi ferðamanna á svæðinu verið aukið til muna." Aðspurður segir hann lokaútkomuna hafa staðist væntingar og gott betur en það. „Það var margt sem þurfti að leysa á leiðinni en lokaútkoman var afar góð," bætir hann við en þörfin fyrir bættri aðstöðu á hafnarsvæðum er að aukast hratt með tilkomu fleiri skemmtiferðaskipa.