Algaennovation örþörungaverksmiðja.png
Frétt - 24.09.2019

Smáþörungaverksmiðja opnar

Algaennovation Iceland opnaði smáþörungaverksmiðju sína við hátíðlega athöfn í dag. Algaennovation er sprotafyrirtæki sem hefur verið að þróa nýja tækni við að rækta smáþörunga. Unnið hefur verið að uppbyggingu á aðstöðu fyrirtækisins sem staðsett er í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun. Mannvit sá um alla verkfræðihönnun og verkefnastjórnun fyrir framleiðsluaðstöðuna. Verkefnið er afar jákvætt skref í átt til frekari nýtingar á þeirri orku sem ON nýtir á Hellisheiðarvirkjun, þar sem Algeaennovation kaupir heitt og kalt vatn, rafmagn og koltvíoxíð til framleiðslunnar.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir m.a. að "viðstaddir opnunina voru, auk fjármálaráðherra, fulltrúar;  Íslandsstofu, sveitarfélagsins Ölfuss, Orku náttúrunnar, hluthafa og mögulegra fjárfesta, verkfræðistofa og verktaka sem sinnt hafa uppbyggingunni. Auk þess mættu fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, ásamt Matís og fulltrúar vísinda-, nýsköpunar- og rannsóknasamfélagsins á Íslandi."

Verkefnið er fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem hátækni í sívöktun, gagnavinnslu og sjálfvirkri aðlögun kerfa er beitt til að ná hámarks árangri í ræktun smáþörunga, óháð tegund þörungs. Mannvit sá um útfærslu og uppsetningu stjórnkerfisins sem gerir þetta mögulegt.

Jafnframt segir að í tilkynningunni að "Algaennovation skilgreinir sig sem hátæknifyrirtæki sem býður lausn við að breyta orku í fæðu (Energy to Food - E2F) með skilvirkari hætti en áður hefur þekkst auk þess sem starfsemin er kolefnisneikvæð, þ.e. umbreytir meiri koltvísýringi í súrefni en fylgir starfseminni. Þá er tæknin hér á landi klæðskerasniðin utan um jarðvarmaver á Íslandi og íslenskar aðstæður.

Til fróðleiks má geta þess að með tækni Algaennovation má framleiða prótein til manneldis á þúsund sinnum minna landsvæði en þyrfti ef sama magn væri framleitt með ræktun sojabauna -  sem þó þykja einna skilvirkastar út frá umhverfissjónarmiðum."

 Fréttir Stöðvar 2 um opnun fyrsta áfanga verksmiðjunnar.