Mannvit mynd 4 - Mannvit.is
Frétt - 20.12.2010

Steinsteypuprófanir fyrir norsku Vegagerðina

Rannsóknarstofa Mannvits hefur gert rammasamning við norsku Vegagerðina um prófanir á steinsteypu og íefnum hennar til tveggja ára með möguleika á framlengingu til allt að tveggja ára. Samningurinn er niðurstaða útboðs á evrópska efnahagssvæðinu og hefur sams konar samningur verið gerður við tvær aðrar rannsóknarstofur, báðar norskar. Með þessu hefur norska Vegagerðin skuldbundið sig til að leita til þessara þriggja stofa vegna allra steypuprófana sem gerðar verða á vegum hennar á samningstímanum. 

Einnig er vert að geta þess að Rannsóknarstofa Mannvits hefur fengið vottun frá norsku vottunarstofunni Kontrollrådet, fyrst íslenskra rannsóknarstofa. Vottun þessi var forsenda þess að stofan gæti tekið þátt í útboði norsku Vegagerðarinnar og nær hún til prófana á steinefni, steinsteypu og sementi. Í úttektinni, sem fór fram 8. og 9. nóvember s.l., var horft sérstaklega til atriða sem snúa að rannsóknarstofunni og prófunum. Lítum við á þessa vottun sem áfanga í leið okkar að faggildingu á rannsóknarstofunni en stefna okkar er sú að verkferlar hennar fylgi þeim kröfum sem gerðar eru til faggiltra rannsóknarstofa.