Úthlutun Loftslagssjóðs Mannvit
Frétt - 12.06.2020

Styrkur úr Loftslagssjóði

Mannvit hlaut á dögunum styrk úr Loftslagssjóði, en þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Sjóðurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Verkefni Mannvits heitir Samgöngumat við skipulagsgerð og tilheyrir flokknum nýsköpunarverkefni. Ólöf Kristjánsdóttir fagstjóri samgangna hjá Mannviti er verkefnisstjóri. Verkefnið snýst um að gera leiðbeiningar um gerð samgöngumats og ferðavenjuáætlunar við skipulagsgerð.

Leiðbeiningar samgöngumats

Við umhverfismat áætlana og skipulagsgerð á Íslandi eru samgöngumál skipulagsáætlunar umfjöllunarefni. Samgöngur eru veigamikill þáttur í skipulagi og hafa áhrif á skipulagið og notendur þess um alla framtíð. Auk þess hefur stefna um samgöngur í hverju skipulagi áhrif út fyrir skipulagið sjálft í flestum tilvikum. Það hvernig notendum skipulags er uppálagt að haga sínum samgönguvenjum hefur áhrif á aðliggjandi samgöngukerfi og svæði. Þannig getur vöntun á aðstöðu og aðgengi fyrir vistvænar og virkar samgöngur (td. göngu, hjólreiðar og almenningssamgöngur) haft þau áhrif að notendur hafa lítið val um annað en notkun bifreiðar sem hefur áhrif á stærð aðliggjandi samgönguæða og þannig á samgöngukerfið í heild og aðra skipulagsreiti. Auk þess að hafa áhrif á umferðarmagn, umferðaröryggi og hljóðvist, hefur samgönguskipulag áhrif á lýðheilsu og lífsgæði og þar spila vistvænar og virkar samgöngur mikilvægt hlutverk. Vegna mikilvægis samgönguskipulags og sjálfbærra samgangna og áhrifa á samgöngukerfið og þéttbýlisumhverfi, þarf að efla vægi umfjöllunar um samgöngur í skipulagsgerð, sér í lagi vantar eftirfylgni með þessu í deiliskipulagsgerð.

Samstarf við Vegagerðina og Reykjavík

Verkefnið er unnið í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg og er framhald af verkefninu „Samgönguskipulag og sjálfbærni“ sem fékk styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar 2018 og skýrsla var gefin út í apríl 2019.

Alls bárust 203 gildar umsóknir í Loftslagssjóð og voru 32 þeirra styrktar. Sótt var um 1,3 milljarða í heild en veittir styrkir til að upphæð 165 milljónir eða um 13%. Alls voru 10 nýsköpunarverkefni styrkt og 22 kynningar- og fræðsluverkefni.

Sjá nánari upplýsingar á vef Rannís um alla styrkina sem veittir voru.

Ljósmynd: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið