Styrkur til Reykjadals - Mannvit.is
Frétt - 10.01.2019

Styrkur til sumarbúða fatlaðra í Reykjadal

Reykjadalur, sumar- og helgardvalarstaður fyrir fötluð börn og ungmenni, hlaut jólastyrk hjá Mannvits í ár. Kosning fór fram meðal starfsfólks um styrkveitinguna sem kemur í stað útsendingu jólakorta ár hvert.

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðumaður Reykjadals, tók á móti styrknum og þakkaði hjartanlega fyrir stuðninginn. Hún sagði að árlega koma um 300 börn og ungmenni í Reykjadal. Styrkurinn kemur sér einkar vel því við Reykjadal liggur stórt útisvæði þar sem leiktæki eru orðin lúin og komin til ára sinna. „Draumur okkar er að gera útisvæðið upp þannig að það verði aðgengilegra fyrir alla gesti Reykjadals. Við munum koma til með að nýta jólastyrkinn frá ykkur í þessa skemmtilegu uppbyggingu á útisvæðinu okkar,“ sagði Margrét Vala Marteinsdóttir. „Teikningar að útivistarparadís Reykjadals liggja fyrir. Endurbæturnar eru þegar hafnar en verkefnið er kostnaðarsamt og verður unnið í áföngum.  Allur stuðningur við verkefnið er því ómetanlegur og færir okkur skrefi  nær draumalóðinni.“

Sumarbúðirnar í Reykjadal hafa það að leiðarljósi að gefa þeim börnum og ungmennum sem þurfa sérstaka þjónustu vegna fötlunar tækifæri til að njóta sumardvalar líkt og ófatlaðir jafnaldrar þeirra. Gleði, jákvæðni og ævintýri eru einkunnarorð Reykjadals og þar er gleðin ávallt við völd. Í Reykjadal er hugmyndafluginu gefinn laus taumurinn.

Á mynd: Friðrik Ómarsson, markaðsstjóri Mannvits, Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðumaður Reykjadals og Björgheiður Albertsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Mannviti.