Brú Yfir Sólheimasand Steypt
Frétt - 20.01.2022

Þrjár einbreiðar brýr heyra brátt sögunni til

Á Suðurlandi er nú unnið að smíði þriggja brúa sem allar munu leysa einbreiðar brýr af hólmi. 

Yfir Jökulsá á Sólheimasandi er í smíðum 163 m. tvíbreið eftirspennt brú. Nýja brúin er byggð á sama stað og sú gamla, en hún var byggð 1967.  Vinna við gerð bráðabirgðavegar hófst í byrjun árs 2021 og var umferð hleypt á hann um miðjan apríl.  Þá hófst vinna við niðurrif gömlu brúarinnar og samhliða því var unnið í vegtengingum að nýju brúnni.  Fyrsta steypa nýrrar brúar fór fram í júní 2021 og nú í seinni hluta desember var svo yfirbyggingin (brúardekk) steypt.  Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki á vormánuðum 2022.

Þá er einnig hafin vinna við endurnýjun brúa yfir Hverfisfljót annars vegar, og Núpsvötn hins vegar. 

Ný brú yfir Hverfisfljót verður 74m löng samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi.  Hún leysir af hólmi 60m einbreiða stálbitabrú. Samhliða brúarsmíðinni verður hringvegurinn endurnýjaðir á um 2 km kafla við brúnna og nýr áningarstaður gerður. Verklok eru í júlí 2022.

Ný brú yfir Núpsvötn verður eftirspennt steinsteypt brú, 138m löng. Hún kemur í stað eldri brúar frá 1974, en sú er 420m löng. Vegna minnkandi rennslis í Núpsvötnum er nú hægt að stytta brúnna um 2/3 frá því sem er. Nýr 1,9 km vegur verður gerður og byggður verður áningarstaður vestan brúar. Verklok eru í nóvember 2022.

Með gerð þessara þriggja brúa fækkar einbreiðum brúm á hringveginum úr 32 í 29. Það er til mikilla bóta varðandi umferðaröryggi og stuðlar að greiðari samgöngum. 

ÞG Verk hf er verktaki á þessum verkum og Mannvit sér um eftirlit.