Tulu Moye Ethiopia Geothermal power plant project Mannvit.jpg
Frétt - 29.10.2018

Tulu Moye jarðhitavirkjun Eþíópíu

Tulu Moye Geothermal (TMGO) hefur gert samning við M-V, sameiginlegt félag Mannvits og Verkís, um undirbúning, verkfræðihönnun og borráðgjöf vegna byggingar á jarðhitavirkjun á Tulu Moye svæðinu í Eþíópíu.

M-V mun miðla af gríðarlegri reynslu sinni við þróun og uppbyggingu á fyrstu jarðhitavirkjun TMGO. Ráðgjafarfyrirtækin munu meðal annars veita ráðgjöf um hönnun á vegum, borstæðum,  holuprófun, gufuveitu og boreftirlit. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Landsvirkjun Power, ÍSOR og MGM. 

Reykjavik Geothermal (RG), sem er einn af eigendum TMGO ásamt fyrirtækinu Meridiam, hefur unnið að undirbúningi virkjunarinnar undanfarin ár og rannsakað jarðhitasvæðið í Tulu Moye s.l. 3 ár. í samstarfi við jarðvísindamenn í Eþíópíu. Niðurstöður rannsókna RG benda til þess að svæðið sé víðfemt og geti staðið undir mikilli orkuframleiðslu. Tulu Moye jarðhitasvæðið er staðsett um 150 km suðaustur af Addis Ababa og 15 km frá bænum Iteya. Í fyrsta áfanga af fjórum mun TMGO vinna að uppbyggingu 50 MW virkjunar með allt að 12 framleiðsluholum og niðurdælingarholum. Markmiðið er að reisa jarðhitavirkjanir sem geti framleitt allt að 520 MW af raforku á átta ára tímabili.

 

Mynd: Tulu Moye jarðhitasvæðið.

Darrell Boyd framkvæmdastjóri TMGO og Elín Hallgrímsdóttir, fagstjóri jarðhitavirkjana hjá Mannviti við undirritun samningsins.