Innviðar á Íslandi, ástand og framtíðarhorfur - Mannvit.is
Frétt - 19.08.2019

87,8% umferðarslysa vegna mannlegra mistaka

Mannvit rannsakaði orsök umferðarslysa með styrk frá Vegagerðinni. Greiningin var framkvæmd á slysum á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu. Margt athyglisvert kom fram í rannsókninni m.a. að 22% slysanna eru vegna þess að of stutt bil er milli bifreiða og 24% slysa verða í myrkri á Íslandi. Einnig kemur fram að 87,8% umferðarslysa er að hluta til eða öllu leyti vegna mannlegra mistaka. 25,5% vegna umhverfis tengdra þátta, 3,4% tengt bíl og 2,9% vegna annarra þátta.

Í frétt á Morgunblaðsins segir að „Mannleg mistök eru langalgengasta orsök umferðarslysa eða 87,8%. Þetta kemur fram í rannsókn verkfræðistofunnar Mannvits á slysum á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Var Rannsóknin unnin með styrk frá Vegagerðinni sem birti jafnframt rannsóknina. Er hún byggð á skoðun á 14 þúsund slysum á tíu ára tímabili frá 2008-2017. Fram kemur að af þeim slysum sem rekja megi til mannlegra mistaka megi greina orsakavaldana í þrennt. 22% slysanna eru vegna þess að of stutt bil er milli bifreiða, 19% vegna ökumanns sem veldur slysi og 12% vegna þess að ógætilega er skipt um akrein. 25,5% umferðarslysa verða vegna umhverfis en 62% slysa sem rekja má til umhverfis verða vegna slæmrar færðar. 2,9% allra umferðarslysa má rekja til bifreiðarinnar og 3,4% til annarra orsaka, að því er fram kemur í rannsóknarskýrslunni. Samkvæmt rannsókninni hefur slysum fjölgað frá árinu 2008 en fjölgunin er ekki stöðug á tímabilinu. Sérleg aukning er á árinu 2009 en stökkið frá 2008 til 2009 var 49%. Frá árinu 2012 hefur fjölgunin verið nokkuð stöðug. Fjölgun slysa frá 2008 til 2017 er 60%. Fram kemur að fleiri slys eigi sér almennt stað á vetrarmánuðum en öðrum mánuðum á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Flest slys áttu sér stað í febrúar eða 1.428 og nánast jafn mörg í janúar eða 1.427. 6,4%- 7,8% slysa urðu yfir vor- og sumarmánuðina í apríl til ágúst en 8,7%- 9,9% um haust og vetur.“

Ennfremur segir að „Hlutfall þeirra slysa sem urðu í myrkri var 24%, í rökkri 10% en 65% í dagsbirtu. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að ungt fólk og karlar eru líklegri til að lenda í slysum en aðrir. Hlutfall kynjanna hjá þeim sem lenda í slysum er u.þ.b. 40/60 konur og karlar, sama hvort horft er á orsakavalda, ökumenn eða alla sem koma að slysinu. Þeir sem hafa nýverið komist á aldur til þess að keyra eru líklegastir til að lenda í og valda slysum en flestir eru í kringum tvítugsaldurinn.“

„Einhver munur er á niðurstöðum sambærilegrar rannsóknar í Danmörku og Mannvit gerði hér, en samkvæmt henni eiga fæst slys sér stað í janúar og febrúar. Á Íslandi verða þó flest umferðarslys á fyrstu mánuðum ársins. Flest slys í Danmörku verða hins vegar í maí og ágúst. 20% slysa í Danmörku eiga sér stað í myrkri, 5% í rökkri og 75% í dagsljósi. Fleiri slys verða í myrkri á Íslandi, eða 24%, en 10% slysa á Íslandi verða í rökkri og 65% í dagsbirtu.“

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér á vef Vegagerðarinnar.