Orka Íslands Fréttablaðið - Mannvit.is
Frétt - 29.12.2016

Umhverfismálin eru í brennidepli

Í sérstöku orkukynningarblaði Fréttablaðsins var viðtal við Tryggva Jónsson og Elínu Hallgrímsdóttur hjá Mannviti í tengslum við aukna áherslu sem orðin er á umhverfismál í orkuiðnaði á Íslandi. Þar kom fram að undanfarin misseri hefur áhersla orkufyrirtækja á Íslandi á umhverfismál aukist til muna. Þessi fyrirtæki hafa lagt mun meira upp úr því að undirbúa ný verkefni vel, út frá þeim sjónarmiðum að upplýsa almenning betur og draga úr umhverfisáhrifum. Mannvit er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á þessa málaflokka og segir Tryggvi Jónsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu, að Mannvit hafi unnið töluvert mikið með orkufyrirtækjum hér á landi í þessu samhengi. „Nærtækustu dæmin eru kynningar og mat á umhverfisáhrifum fyrir Búrfellslund (burfellslundur.landsvirkjun. is) svo og lofthreinsistöðin fyrir Hellisheiðarvirkjun.“

Mannvit hafði yfirumsjón með og samræmdi hönnun, sá um eftirlit með smíði og uppsetningu og annaðist uppkeyrslu lofthreinsistöðvar ON á Hellisheiði. „Stöðin tekur við útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun og skilur úr honum brennisteinsvetni (H2S) og koltvísýring (CO2) sem er svo dælt niður í berggrunninn við virkjunina. Nánast allt brennisteinsvetnið, eða 98 prósent, og hluti koltví- sýringsins, eða fimmtíu prósent, er leyst upp í þéttivatni frá virkjuninni og dælt niður á nokkur hundruð metra dýpi,“ útskýrir Elín Hallgrímsdóttir, vélaverkfræðingur á jarðhitasviði Mannvits. Hún bætir við að þessi niðurdæling uppleysts brennisteinsvetnis og koldíoxíðs í berg sé fyrsta verkefni sinnar tegundar í heiminum. „Það má segja að ON hafi þar með tekið forystuhlutverk í umhverfismálum á sviði jarðhita. Mannvit er gríðarlega stolt af hvernig til tókst með hönnun lofthreinsistöðvarinnar.“ Mannvit hefur jafnframt verið að aðstoða orkufyrirtæki við að setja fram skýrari og betri upplýsingar vegna nýrra verkefna á undirbúningsstigi. „Framkvæmdaaðilar hafa fundið fyrir því hversu erfitt er að koma verkefnum í framkvæmd og oft eru þeir að horfa upp á verkefni stöðvast vegna skorts á kynningu verkefna. Almenningur og aðrir hagsmunaaðilar vilja fá meiri og betri upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir,“ segir Tryggvi.

Með sérstökum upplýsingavef eins og þeim sem gerður var fyrir Búrfellslund, burfellslundur.landsvirkjun.is, er verið að gera upplýsingar eins aðgengilegar og kostur er á fyrir eftirlitsstofnanir, sveitarfélög og almenning. „Þannig hefur fyrirtækjum eins og Landsvirkjun tekist að gera enn betur grein fyrir umhverfisáhrifum af uppbyggingu, hvort sem er sjónrænum eða umhverfislegum áhrifum, áður en farið er af stað. Landsnet og fleiri aðilar eru einnig að gera verulegt átak í þessum málum. Þetta hangir allt að hluta til saman við uppbyggingu innviða sem mikið hafa verið í umræðunni undanfarið og þá sérstaklega í síðustu alþingiskosningum,“ segir Tryggvi og bætir við: „Framkvæmdaaðilar verða að halda áfram að bæta sína undirbúningsvinnu svo auðveldara verði að byggja upp nauðsynlega innviði hér á landi, sérstaklega í orku og orkuflutningi.“

Hér má lesa greinarnar sem birtust þann 28.des 2016 í Orka Íslands kynningarblaði Fréttablaðsins á pdf formi.