SA umhverfisdagurinn 2018 - Mannvit.is
Frétt - 17.10.2018

Skinney-Þinganes hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2018

Skinney-Þinganes hlaut í dag Umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins 2018 fyrir repjuræktunarverkefni í Flatey á Mýrum og með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin og Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess veitti þeim viðtöku. Verkefnið snýst um að nýta repjuolíuna sem íblöndunarolíu á skipaflota fyrirtækisins, fóðurmjölið fer í fóður fyrir nautgripi, stönglarnir undir skepnurnar og svo sem lífrænn áburður á akra. Repjan er þannig nýtt að fullu og er lífrænt ræktuð að auki. Verkefni stuðlar að aukinni hringrás og sjálfbærni í sveitarfélaginu þar sem að allar afurðir eru nýttar að fullu. Repjuverkefnið er unnið í samstarfi við Mannvit og Samgöngustofu. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að fyrirtækið hafi haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt og sýnt frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda t.d. með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess sem Mannvit kom einnig að ásamt repjuverkefninu.

Olía, fóður og áburður
Hjalti Þór Vignisson, Framkvæmdastjóri sölu og þróunar hjá Skinney-Þinganes, Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti og Jón Bernódusson, hjá Samgöngustofu, eru meðal þeirra sem koma að verkefninu en Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinney Þinganes, ásamt þeim Söndru og Jóni veittu verðlaununum móttöku í dag. Mannvit hefur unnið að þessu nýstárlega verkefni í samstarfi með Skinney-Þinganesi og Samgöngustofu. Á vor mánuðum hófst ræktun repju á landsvæði Flateyjar en er hún ræktuð á um 6 hektara svæði. Áætla má að uppskeran gefi um sex tonn af olíu sem sett verður á skip Skinneyjar-Þinganes þegar líða tekur á haustið. Auk þess má áætla að um tólf tonn af fóðri komi úr ræktuninni sem dugar handa 300 kúm. Skinney Þinganes getur þannig sparað sér fóðurkostnað og meðfram því fengið í olíuna á skipin í raun ókeypis að sögn Jóns Bernódussonar.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er haldinn árlega en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Á mynd frá vinstri: Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu, Sandra Rán Ásgrímsdóttir Mannviti, Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Jón Bernódusson Samgöngustofu og Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnendar Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.