María Stefánsdóttir MV Sjálfbærni
Frétt - 21.03.2022

Umhverfisvottaðar byggingar eru framtíðin

María Stefánsdóttir umhverfisverkfræðingur hjá Mannviti sat fyrir svörum hjá Viðskiptablaðinu á dögunum. Þar kom fram að ,,Verkfræðistofan Mannvit kemur að fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfis og sjálfbærni, bæði tengt almennum fyrirtækjarekstri en hefur einnig skipað sér sess sem ráðgjafi í umhverfisvottun bygginga, einkum BREEAM. ,,Umhverfi og  sjálfbærni hafa á skömmum tíma farið úr því að vera mjúkt og sætt málefni yfir í að vera beinhart málefni og snúasts um sterka viðskiptahagsmuni,“ segir María Stefánsdóttir umhverfisverkfræðingur hjá Mannviti og heldur áfram. ,,Í dag er ennþá tækifæri fólgið í því að ná forskoti á samkeppnisaðila með góðri frammistöðu í þessum málum en ef menn byrja of seint, þá er hætta á að þeir heltist úr lestinni. Stjórnvöld um allan heim eru búin að setja sér metnaðarfull markmið um að draga verulega úr losun gróðurhúsa á komandi árum og það þurfa fyrirtæki og einstaklingar einnig að gera.“

Skrefin sem taka má

Eins og þú segir, þá eru margir að sannfærast um að umhverfismálin og sjálfbærni skipti máli en vita ekki hvar þeir eiga að byrja. Hvað ráðleggur þú? ,,Fyrsta skrefið er alltaf að taka stöðuna eins og hún er í dag. Skoða hvaða umhverfisáhrif starfsemin hefur, setja sér markmið um bætta frammistöðu og aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum. Þetta kallar á að við gerum hlutina öðruvísi. Augljósasta dæmið eru orkuskiptin, að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nota raforku eða annan umhverfisvænan eða endurnýjanlegan orkugjafa í staðinn. En jafnframt er margt sem við höfum ekki hugmynd um hvernig við eigum að leysa. Með því að nálgast málefnið á kerfisbundinn hátt út frá sjálfbærni, náum við að nálgast málin heildrænt og jafnframt fá mat og viðurkenningu á frammistöðu okkar. En slíkt getur t.d. skipt máli þegar kemur að fjármögnun eða lánakjörum.“

Þurfum að nota hringrásarhugsun

,,Ef við ætlum að ná metnaðarfullum áformum stjórnvalda í bættri frammistöðu í loftslagsmálum, þá þurfum við að gera hlutina á nýjan hátt. Það er svo margt sem við eigum eftir að finna út úr og vitum ekki. Þess vegna þarf að hlúa að og styðja við nýsköpun á öllum sviðum sem snúa að betri frammistöðu í sjálfbærni í byggingaiðnaðinum.“ María segir að það þurfi einnig að skoða aðferðirnar sem byggingaiðnaðurinn notar og hvernig við getum bætt þær. ,,Allt sem stuðlar að því að við hættum að vera í línulegri hugsun og förum að stuðla að hringrásarhugsun hjálpar. Við þurfum að þekkja auðlindirnar okkar til þess að geta dregið úr innflutningi hráefna, eins og t.d. sandi. Þannig að við þurfum að rannsaka, þekkja og efnisvotta hráefni svo aðeins sé tæpt á því.