Undirbúningur lýsisverksmiðju Margildis - Mannvit.is
Frétt - 18.11.2014

Undirbúningur lýsisverksmiðju Margildis

Þróunarfyrirtækið Margildi og Mannvit hafa gert samstarfssamning í tengslum við undirbúning byggingar nýrrar verksmiðju til framleiðslu á gæðalýsi úr uppsjávarfiski. Nýja verksmiðjan mun fullvinna hrálýsi úr loðnu, síld og makríl til manneldis. Fram til þessa hefur hrálýsi og fiskimjöl úr fyrrnefndum fisktegundum verið unnið sem hráefni til fóðurgerðar fyrir dýraeldi svo sem lax- og silungaeldi.

 

Margildi hefur um nokkurt skeið unnið að þróun nýrrar vinnslutækni og markaða fyrir hrálýsið til manneldis og er meðal annars í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Matís um það. Með fullvinnslu á hrálýsinu til manneldis skapast gríðarleg tækifæri til aukinnar verðmæta- og þekkingarsköpunar í sjávarútvegi.

 

Afkastageta fyrsta áfanga verksmiðjunnar verður um 10.000 tonn á ári og áætluð aukning útflutningsverðmætis lýsis fyrrnefndra fisktegunda allt að 3-4 milljarðar á ári. Gert er ráð fyrir að byggingu fyrsta áfanga verksmiðjunnar ljúki á fyrri hluta árs 2016 og annars áfanga tveimur árum síðar. Með öðrum áfanga verksmiðjunnar er ráðgert að tvöfalda afkastagetuna og möguleikar eru á enn frekari stækkun þegar fram líða stundir. Þannig munu skapast amk. 70 ný störf á sviði framleiðslu, rannsókna og þróunar.

 

Verksmiðjan kemur til með að skapa góðan grunn til frekari nýsköpunar á þessu sviði með rannsóknum, þróun og framleiðslu sérhæfðra omega-3 afurða úr lýsinu. Þær afurðir munu t.d. nýtast sem hráefni til matvælavinnslu omega-3 bættra matvæla svo sem markfæðis og barnamatar sem njóta sívaxandi vinsælda í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.

 

Samningurinn markar nýtt upphaf í fullvinnslu sjávarafurða úr uppsjávarfiski og er ávöxtur samvinnu fyrirtækja innan Sjávarklasans sem Þór Sigfússon veitir forstöðu. Mannvit er einn af stofnaðilum Sjávarklasans ásamt fjölmörgum fyrirtækjum sem tengjast og þjóna sjávarútvegi. Margildi hefur haft aðstöðu í frumkvöðlasetri Sjávarklasans en setrið er stutt af Brim, Icelandair Cargo, Eimskip, Mannvit  og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

 

Á mynd fyrir ofan má sjá forsvarsmenn Margildis og Mannvits við undirritun samningsins, frá vinstri Erlingur Viðar Leifsson, Haukur Óskarsson, Snorri Hreggviðsson og Stefán Karl Snorrason.