Uppsteypa hafin á Marriott Edition - Mannvit.is
Frétt - 26.06.2017

Uppsteypa hafin á Marriott Edition

Fram­kvæmd­ir á Hörpureitn­um þar sem Marriott Edition hót­el rís eru hafnar. Byrjað var að steypa grunninn að byggingunni s.l. nótt en aðal­verktaki fram­kvæmd­anna er Ístak. Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð um 14 milljarðar króna en gert er ráð fyr­ir að hót­elið taki til starfa árið 2019.

Mannvit sér um verkefnastjórnun og heildarumsjón verkefnisins ásamt T.ark teiknistofan arkitektar. Leyfilegt er að byggja 28.500 m2 ofanjarðar og 4.500 m2  neðanjarðar. Reiknað er með því að framkvæmdin skapi ríflega 200 ný störf og um 150 starfsmenn vinni á hótelinu sjálfu þegar það er komið í rekstur.

Hótel Reykjavík Edition
Hótelið við Austurhöfn er ætlað sem ráðstefnuhótel fyrir Hörpu. Það verður fyrst flokks hótel á vegum Edition sem er lúxuskeðja á vegum Marriott International. Marriott Ed­iti­on hót­el­in eru svo­kölluð „bout­ique“ hót­el þar sem hvert þeirra er hannað á sinn hátt. Hótelið verður á sex hæðum og kjallara og um 16.500 m2 að stærð með 250 herbergi, veitingastað og bari, fundarherbergi, veislusal, heilsulind og önnur þægindi sem hæfa 5 stjörnu hóteli.