Samfélagsábyrgð Mannvits - Mannvit.is
Frétt - 16.01.2017

Verðmætasköpun með samfélagsábyrgð

Í Fréttatímanum laugardaginn 14.01.17 var heilsíðuviðtal við Söndru Rán Ásgrímsdóttur sjálfbærniverkfræðing og Ólöfu Kristjánsdóttur, fagstjóra í samgöngufaghóp undir yfirskriftinni Verðmætasköpun með samfélagslegri ábyrgð í sérblaði um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Áherslan hjá Mannviti er að benda á þau skref sem fyrirtæki og stofnanir geta tekið í átt að sjálfbærari hugsun og umhverfisvitund sem er einn stærsti hlutinn af samfélagsábyrgð fyrirtækja. Mannvit er hluti af Global Compact á vegum SÞ ásamt Festu, samtökum fyrirtækja á Íslandi um samfélagsábyrgð. Í viðtalinu kemur m.a. fram að Mannvit veitir ráðgjöf á þessu sviði og þau skref sem fyrirtæki og stofnanir geta tekið í átt að frekari samfélagsábyrgð.

Verðmætasköpun með samfélagslegri ábyrgð

Það er mikill ávinningur fólginn í því að huga að sjálfbærri þróun þegar kemur meðal annars að skipulagi, almennri verkfræðihönnun og samgöngum. Ávinningurinn er víðtækur en felst meðal annars í því að auka hagkvæmni og skila/skapa ábata fyrir umhverfið.

„Við hjá Mannviti áttum okkur á því að öll okkar vinna hefur bein eða óbein samfélagsleg áhrif, hvort sem það er hönnunarverkefni sem við vinnum að eða aðrar daglegar athafnir. Mannvit var sem dæmi fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem greiddi starfsfólki sínu samgöngustyrk til að hvetja til vistvænni ferðamáta, en síðan þá höfum við tekið mörg jákvæð skref til viðbótar,“ segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti. Í dag er Mannvit hluti af Festa, samtökum íslenskra fyrirtækja um samfélagsábyrgð og einnig hluti af Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er eitt öflugasta framtak í heiminum á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja og sjálfbærni. Fyrirtækið er einnig vottað samkvæmt alþjóðlegum gæða-, umhverfis- og öryggis- og vinnuverndarstjórnunarstöðlum og leitast við að hafa sjálfbærnisjónarmið í fyrirrúmi í öllum sínum verkum.“

„Við erum búin að taka stór skref í átt til aukinnar samfélagslegrar ábyrgðar innan Mannvits og teljum okkur geta lagt mikið til málanna meðal annars með ráðgjöf til annarra fyrirtækja og stofnana á þessu sviði,“ segir Ólöf Kristjánsdóttir fagstjóri samgöngufaghóps hjá Mannviti. Ólöf er viðurkenndur matsaðili BREEAM vistvottunar skipulags og vann t.d. að vistvottun Urriðaholts í Garðabæ samkvæmt BREEAM Communities matskerfinu. Vistvottunin mætir óskum íbúa og fyrirtækja um gæði, öryggi, fjölbreytni, náttúruvernd og aðgengi að útivistarsvæðum. „Urriðaholt er fyrsta vottaða skipulagið hérlendis og það mun skila sér til baka í auknum lífsgæðum og verðmæti fasteigna á svæðinu,“ segir Ólöf. Önnur dæmi um vistvæn verkefni á samgöngusviði sem Ólöf hefur unnið að er Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015-2020 og vinningstillaga fyrir rammaskipulag Lyngássvæðisins í Garðabæ. „Við leggjum líka mikið uppúr því að hvetja starfsfólk Mannvits til að nota vistvænar samgöngur til og frá vinnu og gerum ferðavenjukönnun árlega til að fylgjast með og sjá hvað við megum bæta varðandi aðstöðu og hvatningu til starfsfólks. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja snýst um víðtæka vitundarvakningu og stefnumótun innan fyrirtækis varðandi þá þætti í umhverfi og samfélagi sem starf þeirra hefur áhrif á,“ bætir Ólöf við.

Ávinningur umhverfisvottana og sjálfbærrar hönnunar

Til að tryggja sem bestan árangur þarf að vinna þverfaglega eftir sameiginlegri stefnu og nálgun. Hægt er að votta byggingar, skipulagsáætlanir, rekstur og uppbyggingu innviða eftir alþjóðlegum stöðlum en einnig er hægt að vinna að sérsniðinni sjálfbærnistefnu fyrir hvert verkefni fyrir sig. Það er mikill ávinningur fólginn í því að huga að sjálfbærri þróun við verkfræðihönnun, þar má sem dæmi nefna minni áhættu, aukna hagkvæmni og lægri rekstrarkostnað en einnig bætt lífsgæði notanda og ábata fyrir umhverfi og samfélag.

Skref í átt að samfélagslegri ábyrgð

„Við veitum fyrirtækjum m.a. ráðgjöf varðandi hagkvæma orku- og auðlindanýtingu, val á byggingarefnum, endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs ásamt mörgum öðrum atriðum sem geta skilað aukinni sjálfbærni verkefna,“ segir Sandra. Það er margt sem fyrirtæki og stofnanir geta gert til að auka samfélagslega ábyrgð sína og verkefnin þurfa ekki endilega að vera stór. Fyrirtæki geta meðal annars hvatt starfsmenn til vistvænni samgangna, gætt að aukinni endurvinnslu og bættri orkunotkun en einnig eru félagsleg atriði sem er hægt að huga að líkt og vinnuumhverfi starfsmanna og nærsamfélag vinnustaðarins. Gott dæmi um jákvæð skref fyrir nærsamfélagið og ábata fyrirtækis er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja Eskju og Síldarvinnslunnar sem hefur jákvæð áhrif á umhverfið samhliða því að verja fyrirtækin gegn sveiflum í verði á olíu í framtíðinni. „Það er margt sem fyrirtæki og stofnanir geta gert til þess að auka samfélagslega ábyrgð sína og verkefnin þurfa ekki endilega að vera stór.“

Alþjóðleg þróun

Fyrirtæki um allan heim eru að átta sig betur á þeim atriðum sem þau geta breytt eða bætt til að hafa jákvæðari áhrif á samfélagið. „Sem dæmi má nefna að Apple, Amazon og Google leitast við að nota eingöngu græna orku í sín netþjónabú, fyrstu vistvottuðu gallabuxurnar eru komnar á markað og endurnýttur textíll er alltaf að verða vinsælli í fatnað. Svo ekki sé minnst á þau áhrif sem nauðungarvinna eða brot á mannréttindum hafa á fyrirtæki. Staðreyndin er sú að við þurfum að vinna saman að bættri heimsmynd. Sinnuleysi í þessum málaflokki getur valdið miklum skaða á ímynd og orðspori fyrirtækja,“ segir Sandra.