Verk Og Vit 2020
Frétt - 24.02.2020

Verk og vit 2020

Mannvit tekur þátt í Verk og vit 2020 sem fram fer í Laugardalshöll 12.-15. mars. Við hvetjum alla gesti sýningarinnar til þess að líta við á bás okkar númer B50. Á sýningunni er lögð áhersla á íslenskan byggingariðnað, skipulagsmál og mannvirkjagerð.  Á sýningunni 2018 var slegið nýtt aðsóknarmet þegar um 25.000 gestir sóttu sýninguna í Íþrótta- og sýningarhöllinni Laugardal, þar sem um 110 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu vörur sínar og þjónustu.

,,Við leggjum ríka áherslu á sjálfbærni í öllu okkar starfi,“ segir Tryggvi Jónsson, sviðsstjóri hjá Mannviti í viðtali í fylgiriti Viðskiptablaðsins um Verk og vit. ,,Mannvit sérhæfir sig í verkfræði, jarðvísindum, umhverfismálum, upplýsingatækni og byggingarefnarannsóknum auk verkefnastjórnunar og heildarumsjónar verkefna. ,,Við höfum tekið þátt í Verk og vit sýningunum frá upphafi. Þetta er góður vettvangur til að hitta okkar viðskiptavini og þá sem eru þátttakendur í mannvirkjaiðnaðinum.“ Tryggvi segir að Mannvit sé sífellt að bæta grunnþjónustu sína ásamt því að koma með nýjungar í takt við þróun iðnaðarins. ,,Þróun í notkun á 3D forritum og samskiptaforritum tengdum þeim er á fleygiferð.  En það er ekki nóg að hafa forritin því það er lykilatriði að starfsmenn kunni vel á þau og þjálfun þeirra skiptir því mjög miklu. Byggingariðnaðurinn hér á landi er líka sífellt að fóta sig áfram í því að nota ný efni og er notkun á CLT einingum dæmi um það. Við höfum nú þegar hannað nokkrar CLT byggingar meðal annars hótel á Hnappavöllum og á Mývatni.  Mannvit er að hanna nýjan Kársnesskóla og þar notum við BIM, hönnum allt í 3D og notum CLT.“ ,,Varðandi aðrar nýjungar sem Mannvit hefur verið í fararbroddi í má nefna sérstakan mygluleitarhund sem getur leitað að duldri myglu í húsnæði auk hefðbundinnar tækni. Loftgæðasérfræðingar og verkfræðingar okkar hafa nóg að gera við leit að leyndri myglu í húsnæði og bæta loftgæði ásamt því að hlúa að innivist hjá fyrirtækjum. Hluti af góðri innivist og vellíðan einstaklinga, er lýsingarhönnun, sem er fag sem er alltaf að stækka hjá okkur. Ótal rannsóknir liggja að baki sem sýna að rétt magn lýsingar og á réttum tímum auki framleiðni starfsmanna á vinnustöðum og geti aukið námsgetu barna í skólum,“ segir sviðsstjórinn. ,,Stóru áskoranir samfélags okkar á næstu árum er gagnger uppbygging á innviðum  eins og vegagerð, almenningssamgöngum, orkudreifingu, heilbrigðiskerfið og margt fleira. Mannvit hefur alltaf og mun áfram leggja áherslu á að vera í fararbroddi þegar kemur að hönnun og ráðgjöf á þessum sviðum. Þegar verkefnin sem samfélagið stendur frammi fyrir eru af þessari stærðargráðu er mikilvægt að vera með markvissa verkefnastjórn, vandaða valkostagreiningu og skilvirka forgangsröðun verkefna í þágu umhverfis- og samfélagshagsmuna. Við munum væntanlega leggja áherslu á að kynna aðferðir, tól og tæki sem þjóna þessum markmiðum og sýna dæmi um slík verkefnum sem eru í gangi hjá Mannviti á næstu sýningu,“ segir Tryggvi.

Allar upplýsingar um sýninguna má nálgast hér á vef Verk og vit.