
Aðsóknarmet Verk og vit jafnað
Mikill áhugi var hjá fagaðilum og almenningi á sýningunni Verk og vit sem haldin var í Laugardalshöll dagana 24.-27. mars. Alls komu um 25.000 gestir á sýninguna sem jafnar aðsóknarmetið frá árinu 2018. Bás Mannvits á sýningunni var afar vel sóttur og greinilegt að mikill áhugi er á verkefnum sem fyrirtækið vinnur að og ráðgjöf sem Mannvit hefur uppá að bjóða.
Í tilkynningu frá sýningarhaldara segir að um 100 sýnendur tóku þátt að þessu sinni og kynntu vörur sínar og þjónustu. Í tilkynningunni segir Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar „Við áttum von á góðum viðtökum, því áhuginn hefur verið mikill á síðustu sýningum. Það er samt sérlega ánægjulegt að sjá að um 5.000 manns komu og skoðuðu það sem sýnendur höfðu upp á að bjóða.
Aðsóknarmet var slegið á sýningunni 2018 en þá komu einnig um 25 þúsund gestir. Það var ljóst á þátttakendum og gestum að það var löngu orðið tímabært að halda svona stórsýningu aftur. Það er einnig greinilegt að Verk og vit hefur skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd. Það er þegar farið að huga að næstu sýningu, en hún er fyrirhuguð á svipuðum tíma 2024.“
Sýningin Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, m.a. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hugbúnaðarfyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum.
Samhliða sýningunni var gefið út veglegt sýningarrit með viðtölum við aðila úr iðnaðinum. Lesa hér.