Varðan - Mannvit.is
Frétt - 25.03.2015

Viðurkenning frá Vegagerðinni

Vegagerðin veitti Mannvit Vörðuna, sem er viðurkenning vegna hönnunar og frágangs samgöngumannvirkja 2011-2013 vegna göngu- og hjólabrúa yfir Elliðaárósa í flokki brúa sem þykja skara framúr. Vegagerðin veitir Vörðuna sem viðurkenningu vegna hönnunar og frágangs samgöngumannvirkja á þriggja ára fresti. Tilgangurinn með viðurkenningunum er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar, stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði. Eftirfarandi aðilar komu að verki og fengu viðurkenningu fyrir Elliðaár­ósa: Ístak, Teiknistofan Tröð, Teiknistofan Nýbýli, Snøhetta, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar og Mannvit.

Verðlaunahönnunin
Í mati dómnefndarinnar þykja göngu- og hjólabrýrnar við Elliðaárvog sérstök mannvirki sem rísa upp úr borgarumhverfinu og þar segir eftirfarandi „Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa eru tákn um breytta tíma með áherslu á sjálfbæran samgöngumáta. Áhugaverð og skemmtileg upplifun á hjólaleið um Geirsnef gerir hjólreiðar að valkosti þeirra sem eiga erindi milli bæjarhluta vestan og norðaustan Elliðaáa. Þríhyrndur grunnflötur er teygður upp í hyrnu. Formið er dregið upp úr miðju flatarins af fjórða horninu. Bitarnir þrír tengjast saman í toppi hyrnunnar og tylla sér á einfaldar undirstöður við árbakkann. Þetta er burðarvirki brúarinnar sem ber lárétt þunnbyggt brúargólfið með stögum. Leitast var við að lágmarka efnisnotkun með því að gefa brúnum stöðugt grunnform, sem jafnframt er sérkenni þeirra. Brýrnar mynda eina samfellda heild á milli árbakka. Brúargólfin eru samtengd með stíg sem sveigist eftir manngerðu landslagi Geirsnefsins og breikkar við áningarstaði. Verkkaupar voru Reykjavíkurborg og Vegagerðin.” Brýrnar stytta leiðina milli Grafarvogs og miðborgar umtalsvert eða um 700 m. Brúargólfin sem hanga í 18 metra háu burðarvirkinu eru 36 metra löng með burðargrind úr stálbitum og holplötum með steyptu lagi.

Mynd: Frá vinstri, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Björn Þórðarson frá ÍSTAK, Árni J. Gunnlaugsson frá verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, Rúnar G. Valdimarsson frá Mannviti, Sigurður Ingi Ólafsson frá teiknistofunni Nýbýli og Hans-Olav Andersen frá teiknistofunni Tröð.