1B
Frétt - 04.09.2023

Markmiðið alltaf að gera betur í byggingariðnaði

Nýverið var tekið viðtal við starfsmenn Mannvits þær Ölmu Dagbjörtu Ívarsdóttur, fagstjóra á sviði Bættra bygginga, og Helgu Maríu Adolfsdóttur byggingafræðing, sem birtist í nýjasta tölublaði Sóknarfæris.

Mikið hefur verið rætt um framþróun í byggingariðnaðinum en þær vinna báðar að verkefnum sem snúa að vistvænni mannvirkjagerð. Þær fara meðal annars yfir lausnir og fyrirhugaðar breytingar á byggingarreglugerð er varðar lífsferilsgreiningar (LCA) auk þeirrar þekkingar sem er til staðar á sviði Bættra bygginga, kaup COWI á Mannviti og tækifærin sem felast í þeim.

Eins og fram kemur í greininni hafa ágallar í byggingum, má þar sérstaklega nefna mygluvandamál, verið mikið í umræðunni hér á landi og stendur byggingariðnaðurinn frammi fyrir auknum kröfum í umhverfismálum.

„LCA, eins og lífsferilsgreining er gjarnan nefnd, er greining sem hefur það að markmiði að meta umhverfisáhrif og er þekkt í mörgum greinum iðnaðar. LCA í byggingariðnaði hér á landi er hins vegar nýjung á síðustu árum en ég geri ráð fyrir að með endurskoðun byggingarreglugerðar verði skylt að gera slíkar greiningar þegar hús eru byggð. Með LCA greiningu er gerð heildstæð sýn á allan lífsferil byggingar, allt frá framleiðslu byggingarefna, flutningi byggingarefna, framkvæmdir á verkstað eru metnar, lagt er mat á alla þætti á notkunartímabili mannvirkisins," nefnir Helga María meðal annars og Alma tekur í sama streng: „Í náinni framtíð þurfum við að horfa meira til þess hvernig við nýtum orkuna okkar og hanna byggingarnar okkar með orkusparnað, umhverfismál og innivist að leiðarljósi." Hún nefnir til viðbótar að markmiðið sé alltaf að gera betur í framtíðinni á þessu sviði í þeim tilgangi að bæta vistarverur fólks.

Greinina má lesa hér, síður 52-53.

 

Ljósmynd/ Friðrik Ómarsson