Vottaður Mygluleitarhundur
Frétt - 06.11.2019

Vottaður mygluleitarhundur

Þann 31.október birtist athyglisvert viðtal við Kristján Guðlaugsson, byggingarverkfræðing og Ölmu D. Ívarsdóttur sérfræðing á sviði innivistar og loftgæða hjá Mannviti. "Mygluleitarhundurinn Hanz hefur tekið til starfa og nýtist sérstaklega vel við að finna leynda myglu í húsnæði. Mannvit hf. og Allir hundar ehf. luku fyrr á árinu því samstarfsverkefni að þjálfa mygluleitarhundinn Hanz. „Hann opnar nýja vídd við mygluleit; á meðan mannfólkið leitar að sýnilegum merkjum rakaskemmda getur Hanz fundið þær á lyktinni. Í Mið-Evrópu er notkun mygluhunda útbreidd aðferð við að finna leyndar rakaskemmdir og aðferðin er m.a. viðurkennd af umhverfisstofnun Þýskalands,“ segir Kristján Guðlaugsson, byggingarverkfræðingur hjá Mannviti.

Hundurinn Hanz stóðst prófið með 100% árangri

Hanz er fyrsti og eini vottaði mygluleitarhundurinn á Íslandi. Alma Dagbjört Ívarsdóttir, og Kristján starfa hjá Mannviti og hafa unnið að þessu verkefni frá upphafi. „Hanz er einstaklega góð viðbót í innivistarteymið okkar sem veitir alla ráðgjöf á sviði mygluvandamála og bættrar innivistar hjá fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Alma Dagbjört, sérfræðingur á sviði innivistar og loftgæða hjá Mannviti. „Hann stóðst viðurkennt próf í september hjá þýskum samtökum aðila sem vinna að greiningu rakaskemmda og er þar með orðinn fyrsti vottaði íslenski hundurinn í mygluleit. Vottunin er mikilvægur gæðastimpill og sýnir að mikil vinna og ströng þjálfun við mjög sérhæfða leit hefur skilað frábærum árangri,“ bætir Kristján við.

Prófið hefur verið notað í fjölda ára fyrir hundateymi í mörgum löndum. Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hefur annast og þjálfað Hanz frá upphafi. Jóhanna og Hanz þurftu að þreyta prófið innan stífra tímamarka og finna skemmd byggingarefni sem höfðu verið falin í prófunarhúsnæðinu. Teymið náði prófinu með 100% árangri.

Gerir mygluleit skilvirkari

„Gæði innivistar í húsnæði eru gríðarlega mikilvæg og hafa áhrif á bæði heilsu okkar og velferð. Því er mikilvægt að við séum meðvituð um innra umhverfið okkar og grípum strax til aðgerða ef grunur er um slæma innivist. Fyrst og fremst viljum við leggja áherslu á að tryggja fólki heilnæmt húsnæði,“ segir Alma. Markmið Mannvits með þátttöku í verkefninu er að gera leit að rakaskemmdum skilvirkari og markvissari svo hægt sé að grípa strax til aðgerða ef þess er þörf. „Rannsóknir hafa staðfest að orsakasamhengi er á milli rakaskemmda í húsnæði og heilsubrests, rakaskemmdir menga inniloft í húsnæðinu og mengun getur haft áhrif á heilsufar fólks. Það er því mjög mikilvægt að laga rakaskemmdir, en stundum getur verið þrautin þyngri að finna þær og sérstaklega ef þær eru huldar inni í byggingarhlutum, undir gólfefnum og slíku,“ segir Kristján.

Erlendis er notkun mygluleitarhunda mikilvægur þáttur í greiningu skemmdra bygginga og sérstaklega við að finna huldar skemmdir. Mannvit hf. og Allir hundar ehf. vonast til þess að mygluleitarhundurinn muni gera leit að rakaskemmdum í húsnæði bæði fljótlegri og nákvæmari."

Til þess að panta skoðun á húsnæði skal hafa samband við Sigurjón Árnason með tölvupósti eða í síma 422-3000. 

 

Ljósmynd: Sigtryggur Ari, Fréttblaðið