Vottun Bygginga Sóknarfæri Framkvæmdablað
Article - 25.03.2021

Vottun bygginga tryggir ákveðin gæði

„Mygla er ekki eini byggingargallinn sem finnst á húsnæðismarkaðnum en er með þeim verri vegna áhrifa hennar á heilsu og líðan notenda bygginga. Vegna tilvistar þessa byggingargalla á markaðnum auk annarra tekur kaupandi ákveðna áhættu þegar hann fjárfestir í fasteign. Til eru þó leiðir til þess að draga úr þessari áhættu, minnka rekstrarkostnað bygginga til lengri tíma og tryggja kaupanda eða leigjanda ákveðin gæði, það er vottun bygginga,“ segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærni-verkfræðingur hjá Mannviti í viðtali í nýjustu útáfu af Sóknarfæri

Umræðan um húsnæðismál er ávallt hávær í íslensku samfélagi. Gjarnan er umræðuefnið að framboð nái ekki að anna eftirspurn eða þá breytingar á fasteignaverði. Þá hefur umræðan um myglu í húsum sjálfsagt aldrei verið meiri og virðast flest hús á Íslandi glíma við þann vanda á einhverju stigi.

Vottun er ákveðin trygging

„Þegar margir heyra „vottaðar byggingar“ hugsa þeir til umhverfisáhrifa byggingarinnar og finnst tilgangur slíkrar vottunar hérlendis takmarkaður með alla okkar grænu orku og hreina vatn. Hins vegar tryggir vottun á húsnæði  kaupanda ekki aðeins umhverfisvænni byggingu heldur einnig ákveðin gæði byggingarinnar. Þessi trygging felst í því að við vottun á húsnæði þarf framkvæmdaraðili að skila inn gögnum sem sýna fram á að bygging uppfylli kröfur vottunarkerfis. Rekjanleiki sönnunargagnanna tryggir að hönnuðir og framkvæmdaaðilar standist þau gæði sem að vottunarkerfið segir til um. Að sjálfsögðu geta byggingar sem ekki fá vottun uppfyllt sömu skilyrði en þar sem ekki er gerð krafa um sönnunargögn til þriðja aðila við hefðbundnar framkvæmdir eru töluvert meiri líkur á því að svo sé ekki. Kostnaður við vottun er takmarkaður ef litið er til líftíma byggingar en getur dregið úr rekstrarkostnaði,“ segir Sandra Rán.

Hagkvæmari byggingar

Sandra Rán segir að erlendis sé markaðurinn kominn mun lengra í þessum málefnum en hér og að neytandinn sé farinn að átta sig á hagkvæmni vottunar. Rannsóknir þar sýni að vottaðar byggingar eru hagkvæmari í rekstri, líðan notenda er betri og afköst meiri enda minna af eiturefnum og bætt innivist.

„Þó nokkrar byggingar hérlendis hafa fengið vottun, annað hvort samkvæmt breska vottunarkerfinu BREEAM eða norræna umhverfisvottunarkerfi Svansins. Framkvæmdasýsla ríkisins og Reykjavíkurborg hafa verið leiðandi í vottunum bygginga en á síðustu árum hafa sífellt fleiri bæst í hópinn. Þar má nefna sem dæmi Hafnarfjörð sem bíður upp á afslátt af lóðagjöldum fyrir vottaðar byggingar. Samanburður á vottaðri byggingu og hefðbundinni byggingu hefur ekki farið fram hérlendis en ef við erum að fjárfesta í fasteign og viljum vera viss um húsnæðið uppfylli ákveðnar kröfur um gæði þá er vottun húsnæðis ákveðin trygging fyrir kaupendur. Auk þess hafa fjármálastofnanir farið að bjóða hagkvæmari fjármögnun fyrir vottaðar byggingar sem dregur enn frekar úr fjárhagslegri áhættu framkvæmdaraðila. Ef ég hefði það val á húsnæðismarkaði að velja milli húsnæðis með og án vottunar myndi ég a.m.k. alltaf velja vottun,“ segir Sandra Rán að lokum.