Brunahönnun
Mannvit veitir arkitektum, verktökum og fasteignafélögum brunatæknilega ráðgjöf, brunahönnun og gerir úttektir á brunavörnum bygginga, ekki síst í tengslum við endurbætur á eldri byggingum, og tryggir að reglum og lagaákvæðum sé fylgt. Mannvit hefur á að skipa sérfræðingum á sviði brunahönnunar og við mat á brunavörnum mannvirkja.
Að mörgu er að hyggja í brunahönnun, svo sem brunaeiginleikum byggingarefna, skiptingu bygginga í bruna- og reykhólf, flóttaleiðum, brunamótstöðu burðarvirkja, hættu á eldútbreiðslu og þörf á brunaviðvörunarkerfum og slökkvibúnaði.
Sérfræðingar okkar sinna áhættu- og brunavarnagreiningum vegna bygginga- og skipulagsmála og áhættugreiningum í tengslum við iðnað og iðnaðarferla og samgöngumál. Sérstakt þverfaglegt teymi, skipað sérfræðingum í brunatækni, jarðtækni og byggingartækni, er t.d. starfandi varðandi öryggismál jarðganga. Einnig búa þeir yfir víðtækri þekkingu og reynslu af gerð áhættugreininga og áhættumats. Við getum því aðstoðað bæði lítil og stór fyrirtæki sem vilja taka upp eigið eldvarnareftirlit og ráðlagt þeim hvernig best er að standa að innleiðingu þess. Fyrsti fundur sérfræðings Mannvits með viðskiptavini þar sem þjónustan er kynnt og honum ráðlagt um fyrirkomulag eftirlitsins er án endurgjalds.

Passífar brunavarnir
Með passífum (e. passive) brunvörnum er átt við varnir sem ávallt eru til staðar. Hólfa skal byggingar í sérstök brunahólf með viðeigandi eldvarnarveggjum, tryggja eldvarnir á hæðarskilum og með eldvarnarhurðum. Þannig má takmarka útbreiðslu elds og reyks og tryggja að burðarvirki standist eldsvoða í tiltekin tíma og koma þannig í veg fyrir hrun bygginga. Skipuleggja þarf staðsetningu á neyðarútgöngum í náinni samvinnu við arkitekt, eiganda og rekstraraðila hússins þannig að flóttaleiðir séu ávallt greiðfærar og anni þeim fjölda sem gæti þurft að nota þær.
Aktífar brunavarnir
Með aktífum (e. active) brunavörnum er átt við brunavarnir sem verða virkar eftir að eldur hefur uppgötvast í byggingu. Dæmi um aktífar brunvarnir eru brunaviðvörunarkerfi sem bæði uppgötva eld og láta fólk og vaktstöð vita um að eldur sé laus, sjálfvirk vatnsúðakerfi og reyklosunarkerfi.
Brunaviðvörunarkerfi
Ein áhrifaríkasta leiðin til að takmarka afleiðingar bruna í byggingum, sérstaklega á öryggi fólks og eignavernd, er að uppgötva eld og koma skilaboðum áleiðis. Val á brunaskynjurum og hvernig viðvörun um eld er komið áleiðis ræðst af eldsupptökum og notkun rýmis. Í stórum opinberum byggingum þar sem margir eru samankomnir getur verið nauðsynlegt að setja upp brunaviðvörunarkerfi með töluðum skilaboðum og jafnframt setja upp ÚT- og neyðarlýsingarkerfi til að leiðbeina fólki að næsta útgangi. Mannvit getur aðstoðað við val á viðeigandi skynjurum og hvernig best er að koma skilaboðum áleiðis til fólks og viðbragðsaðila fyrir allar tegundir bygginga.
Töpuð markaðshlutdeild er oftar en ekki stærri áhrifaþáttur á rekstur fyrirtækis en beint eignatjón af völdum eldsvoða.
Slökkvikerfi
Mannvit hefur yfir að ráða teymi reyndra hönnuða sjálfvirkra slökkvikerfa. Sjálfvirkt slökkvikerfi er mjög öflug til að slökkva eða í það minnsta takmarka útbreiðslu elds á fyrstu stigum hans. Val á sjálfvirkum slökkvikerfum veltur á ýmsum þáttum, notkun rýmis, eldsmat eða öðrum sérstökum kröfum. Sem dæmi má nefna að til að verja stóra spenna gæti þurft svokallað þurrt flæðikerfi (e. deluge) en við brunaboð í slíku kerfi flæðir vatn út um alla úðahausa samtímis. Gas-slökkvikerfi gæti á hinn bóginn hentað í söfn eða tölvuver þar sem t.d. vatn gæti valdið miklum skemmdum. Mannvit getur aðstoðað við val og staðsetningu handslökkvibúnaðar, þ.e. brunaslöngum og handslökkvitækjum en slíkur búnaður er oft fyrsta kostur til að slökkva eld á allra fyrstu stigum.
Hönnun flóttaleiða
Mannvit aðstoðar við hönnun flóttaleiða í byggingar í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Í byggingum sem hýsa mikinn mannfjölda getur þurft að herma rýmingu og hefur Mannvit yfir að ráða sérhæfðum rýmingarforritum sem taka tillit til fjölda og dreifingar fólks í byggingunni auk fleiri þátta. Niðurstöður útreikninga með rýmingarforritum er hægt að tengja saman við hermiforrit sem reikna út þróun hita og reyks.
Mannvit útbýr einnig flóttaleiðateikningar sem innihalda fyrstu viðbrögð við bruna.
Bruna og reykútreikningar í byggingum.
Mannvit notar nýjust og bestu tækni til að herma bruna í byggingum, t.d. með straumfræðilíkönum (CFD). Með því að nota slíkan hugbúnað er hægt að sýna fram á að öryggi fólks sé tryggt í nýtískulegum flóknum og stórum byggingum eins og verslunarmiðstöðva með stór opin rými sem geta skapað hættur þegar eldur og reykur ferðast langar leiðir frá upptökum.
CFD útreikningar sem notaðir eru til að skipta byggingum upp í sérstök reykhólf eða til að stærðarákvarða vélræna eða náttúrulega reyklosun eru mjög öflug verkfæri þegar meta á kostnað við nauðsynlegar brunavörnir til að tryggja öryggi fólks og eignavernd.
Björgunarpakki og fyrstu viðbrögð við vá
Á hverjum vinnustað er nauðsynlegt að hafa áætlun um rétt viðbrögð ef eldsvoða ber að höndum. Það skiptir miklu máli að áætlunin sé einföld og hnitmiðuð til að tryggja að hún komi að sem bestum notum. Þessi áætlun er sérsniðin fyrir hverja byggingu fyrir sig og inniheldur allar mikilvægustu upplýsingarnar til að lágmarka tjón, t.d. tengiliðalista, staðsetningar á hættulegum efnum, upplýsingar um slökkvikerfi, brunaviðvörunarkerfi, hvernig skrúfað er fyrir neysluvatn inn í húsið o.s.frv.