Endurnýjanlegt eldsneyti | Metan | Vetni

Sérfræðingar Mannvits hafa þróað þekkingu á framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis; lífdísil, lífetanóls, metans, metanóls og vetni. Mannvit hefur hannað lífdísilverksmiðju sem vinnur lífdísil úr úrgangs matarolíu og dýrafitu. Ennfremur tók Mannvit þátt í hönnun metanólverksmiðju sem byggir á bindingu CO₂ frá jarðhitavirkjun og hönnun á vetnisstöð ON og afgreiðslustöðvum vetnis fyrir Orkuna.

Metan.jpg

Metan

Mannvit hafði með höndum undirbúning gasgerðarstöðva SORPU í Álfsnesi. Metanið er hreinsað og selt sem bifreiðaeldsneyti og til notkunar í iðnaði. Mannvit aðstoðaði Norðurorku við að nýta hauggas frá urðunarstað heimilisúrgangs í Glerárdal til framleiðslu á metan-eldsneyti fyrir ökutæki.

Mannvit vann í samvinnu við Háskólann á Akureyri að því að auka nýtni og heimtur loftfirrtrar gerjunar með því að prófa mismunandi stofna hitakærra og millihitakærra baktería.  Sérfræðingar Mannvits, ásamt fleiri fyrirtækjum og rannsóknarstofnunum, tók þátt í rannsóknar- og þróunarverkefni um nýtingu úrgangs frá bændum undir verkefnisstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands. Hugmyndin gengur út á að aðstoða bændur við að greina magn og tegundir úrgangs frá einstaka býlum og leita hagkvæmra leiða við meðhöndlun hans. Ein möguleg leið er að nýta mykju og skít ásamt moði og fleiri úrgangstegundum í loftfirrta gasgerð. Reynsla og þekking Mannvits á gasgerð nýtist þannig vel í verkefninu.

Vetni

Mannvit sá um hönnun á aðstöðu fyrir vetnisstöðvar til að framleiða og afgreiða vetni á ökutæki. Um er að ræða vetnisframleiðslustöð Orku náttúrunnar á Hellisheiði og afgreiðslustöð Orkunnar við Miklubraut. Áður höfðu verið settar upp afgreiðslustöðvar fyrir vetni að Fitjum í Reykjanesbæ og við Vesturlandsveg í Reykjavík en Mannvit sá einnig um hönnun á aðstöðu fyrir þessar stöðvar. 

„Nú geta eigendur metanbíla ferðast á milli Akureyrar og Reykjavíkur á metani einu saman. Kolefnisspor okkar minnkar einnig um 11.000 tonn af koltvísýringi á ári.“

Metanól

Mannvit aðstoðaði Carbon Recycling International (CRI), íslenskt-amerískt nýsköpunarfyrirtæki, við hönnun og verkefnisstjórn við byggingu metanólverksmiðju í Svartsengi sem nýtir CO₂ frá jarðhitavirkjun HS Orku og vetni frá rafgreiningu til að framleiða metanól. CRI framleiðir vistvænt metanól úr CO₂ frá jarðhitavirkjunum á Íslandi og notar rafmagn frá sömu virkjunum til að rafgreina vatn í vetni og hvarfa svo saman vetnið og CO₂. Metanólið er nýtt til íblöndunar í bensín. Þessi hringrás CO₂ mun draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og er skilvirk leið til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti með sjálfbærum hætti.

CRI hefur þróað hreina framleiðslutækni sem gerir kleyft að breyta endurnýjanlegri orku í eldsneyti í smáum eða stórum stíl og getur nýtt sér dreifikerfi rafmagns. Rafmagnið getur verið frá hvaða endurnýjanlegri uppsprettu sem er svo sem frá jarðhita, vatnsafli, vindi eða sólarorku sem leiðir til framleiðslu á hreinu fljótandi eldsneyti. Framleiðsluferlið er samtvinnað úr rafgreiningarferli og hvötuðu metanólferli sem leiðir til skilvirkra vel hannaðra verksmiðja.

 

Lífdísill

Mannvit kom að undirbúningi og hannaði lífdísilverksmiðju Orkeyjar og þróaði framleiðsluferlið á rannsóknarstofu sinni á Akureyri. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 300 tonn á ári og notar hún úrgangssteikingarolíu og fituafskurð frá kjötvinnslu sem hráefni. Hægt er að auka afköst verksmiðjunnar með aukinni sjálfvirkni. Sérstök áhersla er lögð á að hagnýta séríslenskar aðstæður til að ná aukinni nýtni hráefna, bæði olíu/fitu og metanóls. Notkun lífdísils frá verksmiðjunni hefur verið prófuð á strætisvögnum og skipum en meginhluta lífdísilsins er blandað í venjulegan dísil. Lífdísill frá verksmiðjunni uppfyllir allar kröfur staðla um lífdísil.

 

Lífetanól

Mannvit vann með Háskólanum á Akureyri í tveimur rannsóknar og þróunarverkefnum á sviði lífetanólframleiðslu. Hlutverk Mannvits í verkefnunum var kerfishönnun og hagkvæmnimat fyrir 2. kynslóðar lífetanólverksmiðju annars vegar og rannsóknir á notkun hráglýseróls frá lífdísilframleiðslu til lífetanólgerðar hins vegar. Það sem er sérstakt við þetta verkefni er að nota á háhitaþolnar bakteríur frá jarðhitasvæðum, sem geta brotið niður sellulósa a.m.k. að hluta til í etanól og vetni.

 

Tengiliðir

Teitur Gunnarsson

Efnaverkfræðingur M.Sc.

teitur@mannvit.is

+354 422 3143

Sigurður Páll Steindórsson

Vélaverkfræðingur M.Sc., Vélbúnaður og efnaferli

sigurdurp@mannvit.is

+354 422 3259

Play

Endurnýjanlegt eldsneyti