Innivist - rakaskemmdir - mygla

Mannvit veitir alla ráðgjöf á sviði mygluvandamála og bættrar innivistar hjá fyrirtækjum og stofnunum. Mannvit býður uppá sýnatöku í húsnæði og mygluleit. Við hjá Mannviti leggjum áherslu á að skoða ekki bara skemmdir, en við viljum fremur tala um innivistina en að einblína á myglu. Við teljum nauðsynlegt að meta og mæla lykilþætti, draga af þeim ályktanir um ástandið og nota þær til að gera tillögur að aðgerðum til að bæta ástandið.

Skoðun á húsnæði 

Mannvit býður einnig uppá rakamælingar og úttektarskýrslur ef þörf er á. Við leggjum áherslu á að skoða innivist húsnæðis; að greina ástand, gera tillögur að úrbótum og að vakta endurbætt ástand.

Til þess að fá mygluleitarteymi Mannvits í skoðun á húsnæði er hægt að hafa samband við Sigurjón Árnason með tölvupósti eða í síma 422-3000.

Ferli

Mannvit notar eftirfarandi ramma um ferli verkefna sem tengjast innivist og rakaskemmdum, í sumum tilfellum er farið í gegnum allt ferlið, í öðrum aðeins hluta, eins og gengur. Nánar er farið í ferlið neðar á þessari síðu.

 • Ástand: Skoðun og eftir atvikum mælingar
 • Greining: Orsakir og umfang
 • Lausnir: Mögulegar úrbætur, tillögur
 • Vöktun: Vöktun á ástandi loftgæða o.fl.

Í flestum tilfellum er skrifað minnisblað eða greinargerð sem skjalfestir hvað gert var og hvað var lesið úr skoðunar- og mæligögnum. Í sumum tilfellum fylgja í kjölfarið framkvæmdagögn vegna lagfæringa o.s.frv., allt eftir eðli og umfangi verkefnisins og óskum verkkaupans.

Sérfræðiþekking okkar er meðal annars á eftirfarandi sviðum:

 • Innivist
 • Loftgæðamælingar
 • Rakaskemmdir og mygla
 • Rakavarnaráætlanir
 • Ástandsskoðanir á húsnæðum
 • Byggingaeðlisfræði
 • Mengandi þættir í innilofti
 • Notkun og hegðun fólks í byggingum
 • Lýsingarhönnun
 • Hljóðvist og hávaði

 

Loftþéttleikamæling

Mannvit býður einnig uppá loftþéttleikamælingar húsnæðis og víðtæka ráðgjöf fyrir betri innivist húsnæðis.

Eftirlitsmaður - Mannvit

 

Innivist

Innivist er einn mikilvægasti þátturinn í upplifun okkar á umhverfinu sem við lifum og hrærumst í. Upplifunin er flókið samspil skynjunar á ljósi, hljóði, lykt og jafnvel snertingu, en auk þess öndum við að okkur loftinu sem er hluti innivistarinnar og það getur haft mikil áhrif á heilsufar. Við hjá Mannviti leggjum áherslu á að skoða ekki bara skemmdir, en við viljum fremur tala um innivistina en að einblína á myglu. Við teljum nauðsynlegt að meta og eftir atvikum mæla ákveðna lykilþætti, draga af þeim ályktanir um ástandið og nota þær til að gera tillögur að aðgerðum til að bæta ástandið.

Loks teljum við reynsluna sýna að mikil ástæða sé til að fylgjast reglulega með aðstæðum í húsnæði. Mörg dæmi eru um að „myglumál“ í byggingum hafa byrjað á því að óeðlilega mikil veikindi komu upp. Inniloftið er ekki gott, jafnvel mengað, og það getur valdið veikindum. Það er ekki þar með sagt að orsök þess liggi í rakaskemmdum eða myglu, það gæti alveg eins vel verið vegna ófullnægjandi útloftunar, öðrum mengunarefnum o.s.frv. Það er sannað að rakaskemmdir menga inniloft í húsnæði og geta þannig haft slæm áhrif á fólk. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að rakaskemmdir eru ekki bara myglusveppir, í rakanum eru líka bakteríur, mítlar, maurar og fleiri örverur, auk þess að raki stuðlar að niðurbroti byggingarefna, sem getur haft í för með sér aukið magn rokgjarnra lífrænna efnasambanda í innilofti og þau geta verið eitruð. 

Mannvit leggur áherslu að greina ástand, gera tillögur að úrbótum og að vakta endurbætt ástand. Oft þarf að lagfæra skemmdir, en oft snýst málið um að leiðrétta galla í notkunarmynstri húsnæðisins.

Hvað getur bætt þitt innra umhverfi? 
Hér eru auðveldar leiðir til betra innilofts.

Ferli

Ástand

Ástand byggingarinnar og aðstæður verður að vera þekkt. Í sinni einföldustu mynd felst skoðun í því að fara og sjá skemmdir sem vitað er um og að reyna að skilja af hverju þær eru til komnar. Einna flóknust verða málin þegar heilsufarslegir erfiðleikar eru til staðar, en húsnæðið lítur út fyrir að vera í góðu lagi. Við skoðum húsnæðið, tölum við notendur og mælum hitastig og raka í grunsamlegum byggingarhlutum. Loks mælum við ef þörf er á allmarga þætti sem gefa vísbendingar um gæði innilofts og um leið hvort gallar eru í notkun húsnæðisins, t.d. útloftun. Oftast eru miklar sveiflur í flestum þessara þátta svo nauðsynlegt getur verið að nota síritandi mælingar yfir nokkra daga, jafnvel vikur. Stundum eru byggingarhlutar sem grunur beinist að opnaðir og ástand innan í þeim skoðað.

 

Greining

Þegar skoðun húsnæðis er lokið og mæliniðurstöður liggja fyrir eru þær greindar og niðurstöðurnar notaðar til að skilja af hverju ástandið er í ólagi. Skoðunin, mælingar og uppdrættir eru mikilvæg gögn, en oftast eru upplýsingar frá notendum húsnæðisins ekki síður mikilvægar. Oft vita einhverjir til þess að einhvern tímann hafi verið leki, eða rakaskemmdir orðið, loftræsikerfi vinni ekki sem skyldi o.s.frv., sem allt gefur bæði vísbendingar um mögulegar orsakir og gefur ástæðu til að meta hvort viðhald og viðgerðir hafi í gegnum tíðina verið fullnægjandi. Leitin að orsökunum getur stundum verið erfið og dæmi eru um að hún hafi teygt sig út fyrir veggi byggingarinnar.

 

Lausnir

Upplifun okkar af innivist er flókið samspil margra þátta sem við erum meira og minna meðvituð um, t.d. gæði innilofts, lýsingu, hávaða og fleira. Leiðarljósið er að setja fram lausnir á vanda viðskiptavinarins sem eru hagkvæmar, bæta ástandið og eru eftir föngum varanlegar. Algeng vandamál snúa að innilofti og að tryggja gæði þess. Oft finnast skemmdir á húsnæðinu sem valdið hafa mengun á innilofti, í umræðunni oft undir samheitinu mygluskemmdir. En í raun getur það verið margt annað, ófullnægjandi hönnun byggingar, röng umgengni notenda um húsnæðið, mengandi byggingarefni o.fl. Markmiðið er að tillögur okkar ráðist að rót vandans og bæti ástandið. 

 

Vöktun

Reglubundnar mælingar á gæðum innilofts og viðtöl við notendur húsnæðis getur gert mögulegt að uppgötva galla í húsnæði, eða í notkun húsnæðis, áður en þeir ná að verða að vandamáli. Mannvit býður upp á þá þjónustu að koma með umsaminni tíðni í húsnæði og að meta ástand út frá viðtölum við notendur og/eða mælingum. Það fer svo eftir niðurstöðunni hvort aðgerða er talið þörf og hverjar þær gætu verið. Mannvit telur þessa þjónustu geta verið mjög gagnlega, jafnvel verðmæta, bæði fyrir fjölmenna vinnustaði og fyrir aðila sem hafa umsjón með miklu húsnæði.

Tengiliðir

Alma D. Ívarsdóttir

Fagstjóri, Bættar byggingar

almai@mannvit.is

+354 422 3065

Sigurjón Árnason

Rannsóknarmaður, Bættar byggingar

sigurjon@mannvit.is

+354 422 3502

Góð ráð fyrir bætta innivist: Hafa í huga að: - Lofta vel út 2-3 sinnum á dag í 10-15 mín. í senn - Tækjabúnaði og fjölda tækja í hverju rými - Forðast hreinsiefni sem innihalda mikil ilmefni, eitur og rokgjörn efni - Viðhalda og þrífa loftræstikerfi reglulega - Hita- og rakastigi í húsnæði - Lýsingu og hljóðvist