Rennslis- og aurburðarmælingar í opnum farvegum
Mannvit hefur áratuga langa reynslu af rennslis- og aurburðarmælingum í íslenskum vatnsföllum um land allt og notar til þess fyrsta flokks tækjabúnað. Mælibúnaðurinn er notaður til síritunar og rennslismælinga ásamt sýnatöku. Mannvit hefur einnig önnur verkfæri sem nauðsynleg eru til að stunda rennslis- og aurburðarmælingar en tækin eru jafnan leigð út til verkefna. Einnig rekur Mannvit tölvukerfi fyrir sjálfvirka söfnun og varðveislu gagna úr síritum, úrvinnslu og miðlun á vefsíðu.

Meðal verkefna:
- Bjallavirkjun, mælingar á rennsli og aurburði Jökulgilskvíslar.
- Brúarvirkjun, mælingar á rennsli Tungufljóts og mat á flóðarennsli og orkugetu
- Búlandsvirkjun, mælingar á veðurfari og ísmyndun í Skaftá við Rótarhólma.
- Hnútuvirkjun, mælingar á rennsli og aurburði Hverfisfljóts, mat á flóðarennsli og orkugetu
- Hvalárvirkjun, mælingar á rennsli vatnsfalla og veðurfari og mat á orkugetu.
- Skúfnavatnavirkjun, mælingar á rennsli vatnsfalla á vestanverðri Steingrímsfjarðarheiði.
- Virkjun Þverár í Vopnafirði, mælingar á rennsli Þverár, mat á flóðarennsli og orkugetu.
Rennslis- og aurburðarmælingar í opnum farvegum gagnast aðilum við rekstur vatnsaflsvirkjana og vegagerð.
Undirbúningur vatnsaflsvirkjana
Hönnun vatnsaflsvirkjunar krefst þekkingar á tiltæku rennsli til virkjunar, jafnt yfir árið sem milli ára. Rennslisvirkjanir nýta tiltækt rennsli á hverjum tíma án miðlunar og eru oft aflsettar miðað við lágrennsli. Þar sem aðstæður eru fyrir hendi má miðla aðrennsli til virkjunar en ávinninginn af miðlun þarf þó ávallt að meta á grundvelli rennslisgagna. Í stærri verkefnum er gjarnan útbúið rennslislíkan en sannreyna þarf niðurstöður þess með beinum mælingum.
Síritun og rennslismælingar
Heildarmynd af rennslissveiflum vatnsfalls fæst aðeins með samfelldum mælingum á rennsli yfir lengri tíma. Í flestum tilfellum er settur upp vatnshæðarsíriti og samband rennslis og síritaðrar vatnshæðar fundið með stökum mælingum á rennsli. Síritun þarf að standa í eitt til þrjú ár að lágmarki, eftir aðstæðum. Aurburður getur jafnframt haft áhrif á bæði rekstur miðlunarlóna og slit á vélbúnaði. Þegar ætlunin er að virkja jökulvatn er nauðsynlegt að kanna magn aurburðar samhliða rennslismælingum. Ýmsar aðrar mælingar eru jafnan gerðar samhliða rennslis- og aurburðarmælingum eins og síritun á vatnshita og rafleiðni árvatns auk veðurfarsmælinga. Með viðeigandi búnaði má auðveldlega sírita þessar stærðir samhliða vatnshæðinni.
Þegar hanna skal yfirfall á miðlunarlóni vatnsaflsvirkjunar, vegbrú eða ákvarða stærð ræsis undir veg er almennt horft til hámarksrennslis í flóði með tiltekinn endurkomutíma. Við mat á stærð flóða er æskilegt að fyrir liggi rennslisgögn úr viðkomandi vatnsfalli og batnar matið því lengur sem mælingar hafa staðið.
Rennslis- og aurburðarmælingar eru hluti af þjónustu við vatnamælingar.
Tengiliðir
Jón Bergur Helgason
Véla- og orkutæknifræðingur B.Sc., Vatnsaflsvirkjanir
jonbergur@mannvit.is
+354 422 3192