Úrgangsmál
Mannvit hefur aðstoðað sveitarfélög og sorpsamlög við að uppfylla kröfur laga um meðhöndlun úrgangs m.a. með svæðisáætlunum um meðhöndlun úrgangs. Með lögum nr. 55/2003 er öllum sveitarfélögum gert skylt að gera áætlun um meðhöndlun úrgangs. Í áætlununum skal tekið mið af markmiðum sem sett eru fram í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs er Umhverfisstofnun gefur út.

Reglugerðir ESB
Tvö meginvandamálin sem sorpsamlögin standa frammi fyrir eru annars vegar losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðunum og hins vegar að rými til urðunar er að ganga til þurrðar á núverandi stöðum. Samkvæmt reglugerðum Evrópusambandsins þarf að draga verulega úr urðun lífræns úrgangs og hætta því að lokum. Sorpsamlögin eru að verða uppiskroppa með urðunarrými og standa frammi fyrir þeirri staðreynd að þau fá ekki leyfi til að opna nýja urðunarstaði, þrátt fyrir að eðli urðunarstaða breytist verulega þegar urðun lífræns úrgangs hættir.
Áætlunargerð
Fyrsta sameiginlega svæðisáætlunin um meðhöndlun úrgangs fyrir Suðvesturland var gefin út 2005. Mannvit hefur unnið áætlanir fyrir sveitarfélög þar sem bornir eru saman kostir og gallar við jarðgerð, gasgerð, brennslu og urðun og kostnað við þessar mismunandi aðferðir. Skoðuð eru áhrif staðsetningar, stærðar mismunandi aðferða og mismunandi samsetningar meðhöndlunaraðferða.
Mannvit aðstoðaði síðan við Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir Suðvesturland 2009-2020 sem gerð var af sorpsamlögunum á Suðvesturlandi.
Svæðisáætlanir
Á árunum 2006 og 2007 voru aðferðir til meðhöndlunar á lífrænum og brennanlegum úrgangi bornar saman. Markmið samanburðarins var að ákvarða bestu meðhöndlunarleiðina útfrá umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiðum. Allar aðferðirnar sem bornar voru saman töldust „besta fáanlega tækni” samkvæmt reglum Evrópusambandsins.
Mismunandi aðferðir, stærðir stöðva og staðsetningar voru notaðar í bestunarlíkan til að reikna hagkæmustu lausn fyrir svæðið í heild. Niðurstaða þessarar bestunar var haft til hliðsjónar við gerð svæðisáætlunarinnar þar sem eftirfarandi var lagt til grundvallar:
- Öll urðun lífræns og brennanlegs úrgangs verði hætt eigi síðar en 2020
- Sama forgangsröðun og fram kemur í úrgangstilskipun Evrópusambandsins
- Sömu urðunarstaðir til næstu 12 ára og eru nú í notkun
- Megináfangar næstu þriggja ára voru ákveðnir
Forgangsröðun við úrgangsmeðhöndlun
Í fyrsta lagi fer úrgangur til efnisvinnslu, þar sem endurnotanleg og endurvinnanleg efni eru fjarlægð úr úrganginum til að forðast að verðmæt efni fari til spillis og til að minnka það magn úrgangs sem fær meðferð á seinni stigum.
Frá efnisvinnslu fer heppilegur hluti úrgangs til loftfirrtrar gasgerðar til að framleiða eins mikið hauggas úr lífræna hluta úrgangsins og hagkvæmt er. Hauggasið er hreinsað þannig að metanhlutfallið fari yfir 95% og það notað sem bifreiðaeldsneyti.
Það efni sem eftir er að gasgerð lokinni ásamt öðrum heppilegum hluta þess úrgangs sem eftir er fer síðan til loftaðrar jarðgerðar. Endurnotanlegt og endurvinnanlegt efni er fjarlægt áður eða eftir jarðgerð eftir því hvaða tækni er valin fyrir jarðgerðina.
Efni sem hreinsað er úr úrganginum, svo sem plast, gúmmí, timbur o.s.frv., er notað til framleiðslu á brenni (SRF) ef það er hagkvæmt. Þetta eldsneyti má nota í stað kola til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Samkvæmt reglugerðum Evrópusambandsins þarf að draga verulega úr urðun lífræns úrgangs og að lokum hætta urðun hans.
Tengiliðir
Sighvatur Óttarr Elefsen
Vélaverkfræðingur M.Sc. Vélbúnaður og efnaferli
sighvatur@mannvit.is
+354 422 3130