Yfir 60 ára reynsla

Mannvit á rætur sínar að rekja til ársins 1963 þegar Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns (VGK) og Verkfræðistofan Hönnun voru stofnaðar. Á árunum 2007 og 2008 runnu þær, ásamt Rafhönnun, saman í þekkingarfyrirtækið Mannvit.

Stofnendur VGK voru Guðmundur Björnsson og Kristján Ágúst Flygenring vélaverkfræðingar. Þeir hófu starfsemi við ráðgefandi verkfræðiþjónustu á Skólavörðustíg 3A í Reykjavík, á hæðinni fyrir ofan Mokkakaffi. Þann 7. mars 1963 voru keyptir lyklar að húsnæðinu að Skólavörðustíg hjá Járnvöruverslun Jes Zimsen og kvittunin fyrir kaupunum er eitt af fylgiskjölum á fyrsta bókhaldsári fyrirtækisins. 

Stofnendur Hönnunar voru Guðmundur Gunnarsson, Jóhann Már Maríusson, Magnús Hallgrímsson og Þór Aðalsteinsson byggingarverkfræðingar. Samstarf þriggja þeirra hófst í aukavinnu í marsmánuði 1963 heima hjá Þór að Leifsgötu 9 í Reykjavík. Fjórmenningarnir voru allir starfandi á Vita- og hafnamálaskrifstofunni og tóku þátt í verkfalli verkfræðinga í opinberri þjónustu sumarið 1963. Þegar ríkisstjórnin stöðvaði verkfallið með bráðabirgðalögum hættu þeir samstundis störfum og ákváðu að stofna verkfræðistofu. Húsnæði var leigt undir starfsemina að Hólatorgi 2 í Reykjavík og fljótlega var ákveðið að nýja stofan skyldi heita Hönnun.

Rafhönnun sf. var formlega stofnuð 9. september 1969. Stofnendurnir voru Daði Ágústsson og Jón Otti Sigurðsson rafmagnstæknifræðingar. Starfsemin hófst í einu herbergi að Skúlagötu 63 í Reykjavík. Bæði Daði og Jón Otti voru starfsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur og sinntu fyrst starfsemi Rafhönnunar í aukavinnu.

VGK og Hönnun sameinuðust í VGK-Hönnun í ársbyrjun 2007 og þegar Rafhönnun bættist í hópinn árið 2008 varð Mannvit hf til.