Borgarlínan

Ráðgjafateymi sem samanstendur af fyrirtækjunum Mannviti, Cowi frá Danmörku og Arup frá Englandi veitir verkefnastjórnun og ráðgjöf fyrir Borgarlínuna. Teymið var eitt af fjórum alþjóðlegum teymum sem sendu inn tilboð í verkefnið sem verkefnastofa Borgarlínunnar auglýsti. Þrjú teymi voru valin eftir forval og tóku þau þátt í umfangsmiklu tilboðsferli en í lok þess hlaut teymi Mannvits, Cowi og Arup hæstu einkunn fyrir útfærslu auk þess sem tilboð þeirra var hagstæðast.

Mannvit er samningsaðili við verkkaupa um verkefnið og Cowi og Arup eru undirverktakar Mannvits. Teymið býr yfir mikilli reynslu af undirbúningi, skipulagi og framkvæmd sambærilegra verkefna á erlendri grundu en teymið hefur komið að sambærilegum verkefnum í Danmörku, Noregi og Englandi.

Ráðgjöfin felur í sér að veita verkefnastjórn og sérfræðiþekkingu á lykilsviðum við uppbyggingu Borgarlínu, nýs samgöngukerfis fyrir almenning á höfuðborgarsvæðinu.

 

Hvað er Borgarlínan?

Borgarlínan gengur út á að gera almenningssamgöngur að þægilegum og aðgengilegum ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Með Borgarlínu verða ferðir vagna tíðar og áreiðanlegar þar sem sérrými fyrir vagna Borgarlínu tryggja að þeir munu geta komist á milli staða á annatíma án áhrifa umferðarþunga á öðrum akreinum. Borgarlínan og Strætó verða tvinnuð saman í heildstæðu, hágæða leiðaneti en auk þess verður áhersla lögð á að borgarlínustöðvar séu vel tengdar hjóla- og göngustígum. Stöðvar verða yfirbyggðar, aðlaðandi og þægilegar með þrepalausu aðgengi inn í vagnana.

Borgarlínan er niðurstaða áralangs samstarfs ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness. Í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að Borgarlínan verði hluti af margþættri lausn sem felur einnig í sér fjárfestingu í vegamannvirkjum og aukna áherslu á virkar samgöngur. Meginmarkmiðið með Borgarlínunni er að skapa samkeppnishæfan og umhverfisvænan valkost við einkabíla með stóraukinni þjónustu, aukinni tíðni, hraðari ferðum og bættu aðgengi og samspili almenningssamgangna og skipulags.

Ljósmynd efst: Trípólí arkitektar

Borgarlina Reykjavik 1.Lota

Félagshagfræðileg greining

Mannvit og COWI framkvæmdu einnig félagshagfræðilega greiningu Borgarlínu. Niðurstaða hennar er að þjóðhagslegur ábati af framkvæmdinni er metinn tæplega 26 milljarðar kr. að núvirði árið 2020. Greiningin var framkvæmd með danska arðsemislíkaninu TERESA sem hannað var fyrir samgönguráðuneyti Danmerkur til að samræma aðferðafræði við gerð kostnaðar-ábatagreininga á samgönguverkefnum. Líkanið hefur m.a. verið notað fyrir uppbyggingu Metro-kerfisins í Kaupmannahöfn. Líkanið var þróað af samgönguhagfræðingum í Danmörku, út frá kröfum Evrópusambandsins um gæði kostnaðar- og ábatagreininga.

Áhrif á alla ferðamáta skoðuð

Samhliða greiningunni var útbúið ítarlegt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið og áhrif Borgarlínunnar á alla ferðamáta greind, líkt og tíðkast á Norðurlöndum. Niðurstöður líkanskeyrslna með og án Borgarlínu voru að Borgarlínan mun draga úr umferðartöfum frá því sem hefði orðið. Tilfærsla farþega frá einkabílum í almenningssamgöngur í líkaninu gerist vegna þess að notendur meta almenningssamgöngur sem samkeppnishæfan ferðamáta á við einkabíl m.t.t. ferðatíma og beinna útgjalda. 

Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga mikið á næstu áratugum. Niðurstöður samgöngulíkans benda til að umferðartafir myndu aukast til muna á næstu áratugum þó að fjárfest yrði eingöngu í innviðum fyrir bílaumferð. Margþætt lausn í samgöngum og þétting byggðar varð því fyrir valinu í sviðsmyndagreiningu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Lausnin fælist í fjölbreyttum og raunhæfum samgönguvalkostum sem auka afköst í samgöngum og bæta gæði hins byggða umhverfis.

Verksvið

  • Verkefnastjórnun
  • Verkefnisgát, þar með talið kostnaðar- og framvindugát og áætlanagerð
  • Gæðastýring, áhættumat, breytingastjórnun og innkaup
  • Stjórnun á hönnunarferli
  • Gerð og eftirfylgni samskipta- og samráðsáætlana
  • Stuðningsþjónusta
  • Stjórnun á framkvæmdatíma
  • Aðstoð við prófun og gangsetningu
300.000
Fjöldi íbúa borgarinnar 2040
160
Hámarks farþegarfjöldi í vagni
7
Stofnleiðir Borgarlínu
Play

Borgarlínan og Strætó kynningarmyndband