Fangelsið á Hólmsheiði

Mannvit ásamt Arkís og öðrum fagaðilum, vann að hönnun á nýju fangelsi á Hólmsheiði en tillaga Arkís var hlutskörpust úr hópi átján tillagna um hönnun hússins á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins fyrir innanríkisráðuneytið. Fangelsið er 3600 m² að stærð og þar eru 56 fangaklefar og sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Mannvit sá um verkfræðihönnun og gerð útboðsganga.

Hönnun fangelsisins er með þeim hætti að hægt verður að stækka og minnka fangadeildir eftir þörfum sem gera mun nýtingu fangelsisins betri. Öll aðstaða fanga svo sem fyrir vinnu, nám, íþróttaiðkun og síðast en ekki síst aðstaða til heimsókna verður til fyrirmyndar. Fangelsið á Hólmsheiði er vottað samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM. Með þeirri hugmyndafræði er við sköpun á manngerðu umhverfi leitast við að auka lífsgæði, nýta sjálfbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best.

Verksvið

Hönnun og gerð útboðsganga fyrir jarðvinnu, burðarvirki, loftræstingu, lagnir og hljóðvist.

3600 m² 
Stærð
56
Fangaklefar
2,7 milljarðar 
Kostnaður

Fyrsta skóflustunga að nýju fangelsi á Hólmsheiði var tekin 4. apríl 2013. Nýja fangelsið er móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Nýja fangelsið leysir hegningarhúsið við Skólavörðustíg af hólmi, sem starfrækt hefur verið í 140 ár og fangelsið Kópavogsbraut 17 en hvorugt fangelsið uppfyllir nútímakröfur um fangavist. Þá verður gæsluvarðhaldsdeild í fangelsinu Litla-Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun. Fangelsið var tekið í notkun 10 júní 2016.