Hitaveita í Szentlörinc, Ungverjalandi

Verkefnið snérist um 3,1 MWth jarðvarmavirkjun til húshitunar í bænum Szentlörinc í suðurhluta Ungverjalands. Þróun verkefnisins hófst árið 2008 og hafði  að markmiði að skipta út eldra hitaveitukerfi sem nýtti jarðefnaeldsneyti og sá öllum húsum í bæjarfélaginu fyrir húshitun og heitu neysluvatni.

Borun fyrstu borholu var lokið í september 2009. Borholan náði niður í misgengi í kristölluðu bergi á rúmlega 1800 m dýpi.  Borun seinni holu lauk í október 2010 og náði hún niður í sama mismengi og dýpri holan, en á rúmlega 1600 metra dýpi. Ítarlegar holuprófanir voru framkvæmdar í kjölfar beggja borana með það að markmiði að kanna eiginleika borholnanna og rannsaka fyrirliggjandi jarðvarmaforða. Fyrsta borholan var nýtt sem vinnsluhola og gaf af sér alls 25 sekúndulítra af 86 gráðu heitu vatni á yfirborði. Seinni borholan var nýtt til þess að dæla vatninu aftur niður í jarðhitageyminn. 

Hitaveita í Szentlörinc, Ungverjalandi - Mannvit.is

Vinna við undirbúning, hönnun og útboð vegna jarðvarmastöðvarinnar hófst seint á árinu 2009. Framkvæmdir á verkstað hófust í júlí 2010 og var lokið með árangursríkum prófunum og gangsetnngu 3,1 MWth jarðvarmahitaveitu í desember 2010. Mannvit annaðist allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir vegna  staðsetningar á borholunum og hönnun þeirra, auk þess að hafa  umsjón og eftirlit með borframkvæmdum. Mannvit sá ennfremur um alla hönnun hitaveitunnar og eftirlit með framkvæmdinni til loka.

Verksvið

 • Verkefnisstjórn
 • Heilsu-, öryggis- og umhverfismál
 • Jarðvísindalegar rannsóknir
 • Mat á jarðhitasvæði
 • Staðsetning og hönnun borholna
 • Umsjón borverks
 • Prófanir borholna
 • Hermun og líkanagerð fyrir jarðvarmaforða
 • Hermun umhverfisáhrifa
 • Hönnun jarðvarmakerfis
 • Hönnun hitaveitu
 • Leyfisöflun
 • Úboð og innkaup
 • Mat tilboða og verktaka
 • Verkeftirlit
 • Stjórnun hönnunar, innkaupa og verklegra framkvæmda
 • Prófanir og gangsetning kerfis
 • EPCM verkefnastjórnun
1.820
Framleiðsluhola
86 °C 
Hitastig vökva
55.000 gígajúl 
Framleiðslugeta

Verkið er unnið fyrir ungverska einkafyrirtækið PannErgy. Hitaveitan er sú stærsta í Ungverjalandi sem notar alfarið endurnýjanlega og umhverfisvæna orku og leysir af hólmi núverandi gashitun. Mannvit opnaði skrifstofu í Búdapest árið 2008 til að fylgja eftir verkefnum í Mið-Evrópu. Þar eru nú vel á annan tug starfsmanna. Í Ungverjalandi er hefð fyrir nýtingu jarðhita og þekking á jarðborunum er mikil í landinu vegna vatnsöflunar en þó einkum í tengslum við leit að olíu og gasi. Mannvit hefur tekist að tvinna saman reynslu heimamanna af staðháttum og sérþekkingu Mannvits á jarðvarmaverkefnum á Íslandi og víðar til að byggja upp miðstöð fyrir starfsemi félagsins á meginlandi Evrópu. Auk þess að sinna verkefnum í Ungverjalandi er skrifstofa Mannvits í Búdapest jafnframt í jarðhitaverkefnum í öðrum löndum Evrópu. Skrifstofan þjónustar m.a. verkefni í Þýskalandi, Slóvakíu, Slóveníu, Bosníu-Hersegóvínu, Rúmeníu, Grikklandi og Tyrklandi.