Lofthreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun CarbFix og SulFix

ON (Orka náttúrunnar) rekur hreinsistöð sem er hluti af CarbFix og SulFix verkefninu við Hellisheiðarvirkjun. Stöðin tekur við útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun og skilur úr honum brennisteinsvetni (H2S) og koltvísýring (CO2). Verkefnið er afrakstur samstarfs OR, ON, Mannvit og Háskóla Íslands við menntastofnanir í Evrópu og Bandaríkjunum. Árið 2017 voru hverfilsamstæður Hellisheiðarvirkjunar númer 5 og 6 tengdar við hreinsistöðina, sem hreinsar nú megnið af brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar. Hreinsistöðin er sú eina sinnar tegundar og hefur reynst farsæl lausn á gasútblæstri Hellisheiðarvirkjunar.

Mannvit var með yfirumsjón og samræmingu hönnunar og sá um eftirliti með smíði og uppsetningu og hefur annaðist uppkeyrslu hreinsistöðvarinnar. Meðal verkefna var að hanna líkan þar sem virkni vinnsluferilsins var hermdur, samræmdur og einstakir hlutar stöðvarinnar stærðaðir. Ferilhönnun (P&ID) var breytt vegna stækkunarinnar en hönnun þvottaturns, sem sér um að aðskilja gösin úr útblæstrinum, var óbreytt. Bætt var við búnaði til að auka afköst svo sem þjöppum og dælum.

Hellisheidi geothermal power plant - Hellisheiðarvirkjun

Árlega dælir ON 12.000 tonnum af CO2 og 5.000 tonnum af H2S niður í jörðina sem bindast í berglög við virkjunina.

Rekstur lofthreinsistöðvar

Undirbúningur að hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar hófst 2007 þegar Mannvit tók saman hvaða leiðir voru í notkun í heiminum og setti fram hugmynd að nýrri og ódýrari lausn. Í framhaldinu var hönnuð tilraunastöð og hún boðin út, byggð og rekin í um 2 ár, áður en ákveðið var að byggja þá stöð sem nú er í rekstri.

Tilraunarekstur hreinsistöðvarinnar hófst á vormánuðum 2014 og þar með niðurdæling brennisteinsvetnis og koldíoxíðs. Unnið hefur verið að aðlögun hennar að virkjuninni síðan, en þeirri vinnu er nú að mestu lokið. Í stöðinni eru brennisteinsvetni og koltvísýringur skilin frá jarðhitagasinu sem samanstendur aðallega að þremur gastegundum; koltvísýringi (CO2), brennisteinsvetni (H2S) og vetni (H2). Nánast allt brennisteinsvetnið (98%) og hluti koltvísýringsins (50%) eru leyst upp í þéttivatni frá virkjuninni og dælt niður á 1.000 til 2.000 metra dýpi. Samkvæmt verkefnisáætlun Orku náttúrunnar var reiknað með að reka stöðina í eitt ár áður en metið var hvort þessi nýja aðferð bæri tilsettan árangur. Niðurstaða Orku náttúrunnar var sú að veðja á þessa leið, a.m.k. þar til aðrar leiðir sem nýta gasið betur hafa verið þróaðar.

Hagkvæm lausn 

Fram hefur komið í máli forstöðumanna tækniþróunar hjá ON, er þessi leið allt að 10 sinnum hagkvæmari en aðrar leiðir sem notaðar eru í jarðhitageiranum. Það má því segja að tillögurnar sem settar voru fram um lausn fyrir brennisteinsvetnisútblástur á Hellisheiði hafi nú skilað sér að fullu í bættum mengunarvörnum virkjunarinnar.

Mannvit vinnur áfram með jarðhitafyrirtækjunum við að leita leiða til að nýta jarðhitagastegundir sem auðlind, til framleiðslu á ýmsum söluvörum.

Verksvið

  • Yfirumsjón og samræmingu hönnunar
  • Eftirlit með smíði og uppsetning.
  • Umsjón með uppkeyrslu
  • Ferilhönnun (P&ID) og hönnun þvottaturns
  • Verkhönnun
98%  
Hreinsað brennisteinsvetni
1000-2000 m. 
Niðurdælingardýpi
0.37%
Hlutfall gass í jarðgufu

Mannvit er aðal ráðgjafi OR og ON í hönnun á lofthreinsistöðinni við Hellisheiðarvirkjun oftast nefnt CarbFix og SulFix.

Play

Skýringarmyndband ON um CarbFix & SulFix