Spennuhækkun í 420 kV, Noregi

Orkuflutningsfyrirtæki Norðmanna, Statnett, fór í umfangsmikla spennuhækkun á raforkukerfinu. Rannsóknir fyrirtækisins hafa sýnt að hægt sé að auka flutningsgetu um nærri 30 prósent með því að spennuhækka núverandi 300 kV háspennulínur landsins í 420 kV í stað þess að byggja nýjar 420 kV línur. Með því er hægt að bregðast við, á tiltölulega skömmum tíma, umtalsverðri aukningu á orkueftirspurn í Noregi. Hönnunin eykur flutningsgetu núverandi lína umtalsvert án mikilla sýnilegra áhrifa og fyrir tiltölulega lágan kostnað m.v. byggingu nýrra lína. Þessi aðgerð þýðir að hægt sé að spara næstum sjö milljarða NOK í uppfærslu raforkukerfis Statnett til ársins 2030.

Mannvit, ásamt verkfræðistofunni Ramböll, undirritaði rammasamning við Statnett. Í gegnum hann var Mannvit hluti af teymi þriggja ráðgjafa Statnett sem vinna að spennuhækkun á um 1500 km af 300 kV háspennulínum í 420 kV. Núverandi möstur og leiðarar eru notaðir áfram en hönnun á spennuhækkuninni er skipt í þrjá hluta: Fyrst er núverandi lína skoðuð og gert eins nákvæmt líkan af henni og mögulegt er. Í öðrum fasa eru hannaðar fyrstu tillögur að uppfærðri einangrun á línunni og  „vandræða“ turnar greindir. Þriðji fasi felur loks í sér ýtarlega hönnun, líkindagreiningu og endanlegar útfærslur.

Áður en til framkvæmda kemur sjá ráðgjafar í samvinnu við Statnett um innkaup á efni og eftirfylgni efnispantana ásamt gerð tæknikröfulýsinga fyrir framkvæmd. Einnig mun rágjafarteymið veita ráðgjöf á framkvæmdatíma, eftirfylgni á verkstað og gerð lokaskýrslu um verkefnið.

Verksvið

Nákvæm skoðun á núverandi línum og ítarleg hönnun á einangrun og upphengibúnaði til að uppfylla auknar lágmarksfjarlægðir við spennuhækkun. Innkaup á efni og eftirfylgni ásamt gerð tæknikröfulýsinga fyrir framkvæmd. Ráðgjöf á framkvæmdatíma, eftirfylgni á verkstað og gerð lokaskýrslu.

420 kV 
Flutninsgeta
7 milljarðar.NOK 
Sparnaður
1500 km 
Háspennulínur

Það er einstakt tækifæri að vera þátttakandi í einni viðamestu spennuhækkun á heimsvísu. Við erum að feta ótroðnar slóðir við uppfærslu núverandi háspennulína og auka flutningsgetu umtalsvert með tiltölulega litlum tilkostnaði.

Daníel Scheving Hallgrímsson

Verkefnisstjóri