Stækkun Búrfellsvirkjunar

Mannvit er með framkvæmdaeftirlit með stækkun Búrfellsvirkjunar. Verkefni Mannvits felur í sér eftirlitsþjónustu vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar sem mun nýta vatn sem í dag rennur fram hjá núverandi stöð. Uppsett afl nýrrar stöðvar verður 100 MW með einni vél, en framkvæmdir eru hafnar og er áætlað að gangsetja virkjunina á vormánuðum 2018.

Hlutverk Mannvits í framkvæmdinni er skipt í eftirlit með jarðvinnu þ.e. greftri fyrir aðrennsliskurði, inntaksmannvirki, fallgöngum, kapalgöngum, greftri fyrir stöðvarhússhvelfingu og aðliggjandi loka og aðkomugöngum og tengigöngum, frárennslisgöngum, frárennslisskurði ásamt gerð brúar og vega innan framkvæmdasvæðisins. Einnig felur verkefnið í sér eftirlit með byggingarvinnu, þ.e. byggingu stöðvarhúss, ásamt uppsteypu inntakshúss, spennahúss og aðkomumannvirkis. Auk þess sér Mannvit um eftirlit öryggis-, heilbrigðis og umhverfismála ásamt því að veita heilbrigðisþjónustu á verkstað.

Verksvið

Framkvæmdaeftirlit með jarðvinnu og byggingarvinnu. Eftirlit öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála ásamt því að veita heilbrigðisþjónustu á verkstað.

300 GWst 
Orkugeta
100 MW 
Afl
2018
Gangsetning

Framkvæmdin mun auka rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins þar sem stækkunin mun auka orkugetu þess um allt að 300 GWst á ári. Með nýrri virkjun er unnt að hámarka nýtingu á rennsli Þjórsár við Búrfell sem rennur að jafnaði ónýtt fram hjá stöðinni á hverju ári. Lögð verður áhersla á að mannvirki verði sem minnst áberandi og verður stöðvarhúsið neðanjarðar. Einnig verður lagt allt kapp á að hafa gott umhverfi, öryggi og heilsu starfsmanna að leiðarljósi við eftirlit og stjórnun framkvæmda. Stefnt verður að öflugu heilsu- og vinnuverndarstarfi sem stuðlar að öryggi og góðri líðan starfsmanna þannig að tryggt sé að allir geti komið heilir heim. Áætlaður heildarkostnaður er um 16 milljarðar íslenskra króna.

Ársskýrsla Landsvirkjunar 2015

Play